Viðskipti innlent

Mun færri kjaramál til VR

Málum til meðferðar í kjaramáladeild VR fækkaði um 30% á fyrstu sex mánuðum ársins miðað við sama tíma í fyrra. Þetta kemur fram á heimasíðu Verslunarfélags Reykjavíkur. Á árunum 2001-2003 komu að meðaltali 600 mál til meðferðar í kjaramáladeild VR fyrri hluta árs en á þessu ári voru þau 422 eða 30% færri. Einkum er um að ræða mál vegna innheimtu launa en einnig ágreining á vinnustöðum og fleira sem varðar stöðu og réttindi launafólks á vinnumarkaði. Allt árið í fyrra fékk kjaramáladeild 1.461 mál til meðferðar og hafa þau aldrei verið fleiri. Það ber þó að hafa í huga að í lok árs varð Útgáfufélagið DV gjaldþrota en í því máli einu voru gerðar launakröfur fyrir hönd 430 einstaklinga. Haft er eftir Gunnari Páli Pálssyni, formanni VR, að fækkun mála sé vísbending um að góðærið sé að skila sér. Atvinnuleysi helst hins vegar óbreytt milli áranna 2003 og 2004. Gunnar Páll telur þó að viðsnúningur verði á vinnumarkaði í haust. Mál til meðferðar í kjaramáladeild VR, fyrstu sex mánuði ársins: Árið 1999 265 mál Árið 2000 344 mál Árið 2001 614 mál Árið 2002 581 mál Árið 2003 608 mál Árið 2004 422 mál





Fleiri fréttir

Sjá meira


×