Viðskipti innlent

Vextir Íbúðalánasjóðs lækka

MYND/Vísir
Vextir Íbúðalánasjóðs lækka nú um mánaðamótin niður í 4,35 prósent, sem eru 0,05 prósentustigum lægri vextir en viðskiptabankarnir hafa boðið síðustu daga, og 0,15 prósentustigum lægra en vextir Íbúðalánasjóðs eru nú. Óhætt er að segja vaxtalækkun KB banka á íbúðalánum í upphafi vikunnar hafi dregið dilk á eftir sér. Strax daginn eftir lækkuðu aðrir viðskiptabankar vexti á sínum íbúðalánum niður í sama prósentustig, eða 4,4 prósent, sem er 0,1 prósentustigi lægra en kjör Íbúðalánasjóðs eru nú. Margir hafa litið á þetta sem leið viðskiptabankanna til að gera Íbúðalánasjóð óþarfan, en bankarnir hafa undanfarin misseri biðlað til stjórnvalda um að taka við hlutverki Íbúðalánasjóðs. Nú hefur Íbúðalánasjóður komið með mótleik, lækkað vexti frá og með næstu mánaðamótum í 4,35 prósent, sem er aðeins 0,05 prósentustigum lægra en nýju vextir bankanna. Stjórn Íbúðalánasjóðs segir að vaxtalækkunin sé tilkomin vegna þess að íbúðabréf sjóðsins hafi nú verið seld í lokuðu útboði á erlendum fjármálamarkaði. Vaxtaákvörðun stjórnar Íbúðalánasjóðs byggir á ávöxtunarkröfu í lokuðu útboði á erlendum fjármálamarkaði, en vegin heildar ávöxtunarkrafa útboðsins án þóknunar var 3,73% en 3,77% með þóknun. Íbúðalánasjóður segist almennt leitast við að selja skuldabréf sín í opnum útboðum. Í ljósi markaðsaðstaðna hér á landi í kjölfar róttækra breytinga á útlánsvöxtum íslenskra banka og sparisjóða hafi þó verið ákveðið þessu sinni hafa úboðið lokað útboð sem eingöngu var beint til erlendra fjárfesta.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×