Viðskipti innlent

Hallinn jókst um 2,7 milljarða

16,7 milljarða króna halli varð á viðskiptum við útlönd á öðrum fjórðungi ársins samkvæmt bráðabirgðauppgjöri Seðlabanka Íslands, samanborið við 14,5 milljarða króna halla á sama tímabili árið áður. Hallinn jókst því um 2,7 milljarða. Á fyrri helmingi ársins var viðskiptahallinn 27,8 milljarðar króna samanborið við ríflega 13 milljarða króna á sama tímabili í fyrra. Útflutningur vöru og þjónustu var 7,1% meiri á fyrri árshelmingi 2004 en á sama tíma í fyrra en innflutningur var um 17,7% meiri, reiknaður á föstu gengi1. Hallinn á þáttatekjum (laun, vextir og arður af fjárfestingu) og hreinum rekstrarframlögum var 4,9 milljarðar króna á fyrri árshelmingi en 7,4 milljarðar á sama tímabilií fyrra. Erlendar skuldir þjóðarinnar námu 596,6 milljörðum króna umfram erlendar eignir í lok júní. Hrein skuldastaða við útlönd hækkaði um 46,5 milljarða króna á fyrri árshelmingi vegna fjármögnunar viðskiptahallans en einnig vegna verð- og gengisbreytinga. Gjaldeyrisforði Seðlabankans nam 68,5 milljörðum króna í júnílok og hafði aukist frá ársbyrjun um 10,5 milljarða króna.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×