Erlent

41 liggur í valnum

Fjörutíu og einn maður hið minnsta liggur í valnum eftir þrjú sprengjustilræði í Bagdad í Írak í morgun. Bandarískir hermenn í Írak verða að meðaltali fyrir um áttatíu árásum á degi hverjum.  Sprengjutilræðin í morgun voru greinilega skipulögð með það í huga að valda sem mestu tjóni. Fyrsta sprengjan var sjálfsmorðsárás sem gerð var skammt frá bílalest bandarískra hermanna í suðurhluta Bagdad. Seinni tvær sprengjurnar sprungu á sama stað, einmitt þegar almenning og hermenn dreif að til að reyna að aðstoða þá sem særðust og létust í fyrstu sprengingunni. Fórnarlömbin eru bæði írakskir borgarar og bandarískir hermenn. Og enn springa sprengjur í Bagdad því nú skömmu fyrir hádegi bárust fregnir af enn frekari sprengjutilræðum. Fréttaskýrendur segja að ástandið í Írak fari versnandi dag frá degi og vilja meina að öfgahópar séu að gíra sig upp fyrir fyrirhugaðar kosningar í landinu snemma á næsta ári. Fyrir aðeins mánuði síðan voru að meðaltali gerðar um fjörutíu árásir á dag á bandaríska hermenn en nú eru þær að meðaltali um áttatíu á dag. Þá fer mannránum einnig fjölgandi. Arabíska sjónvarpsstöðin Al Jazeera sýndi í morgun sjónvarpsupptöku frá írökskum öfgahópi sem segist hafa rænt tíu manns í Írak; sex Írökum, tveimur konum frá Indónesíu og tveimur frá Líbanon. Fólkið vinnur allt hjá rafeindafyrirtæki í Írak. Öfgahópurinn, sem kallar sig „Her Íslams“, hefur enn ekki sett fram neinar kröfur.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×