Viðskipti innlent

Stjórnarformaðurinn á þriðjung

Hannes Smárason, stjórnarformaður Flugleiða, er orðinn stærsti eigandi félagsins með þriðjungshlut eftir að hann keypti Jón Helga Guðmundsson, forstjóra BYKO, út úr Eignarhaldsfélaginu Oddaflugi. Jafnframt hefur Jón Helgi sagt sig úr stjórn félagsins.  Það var í byrjun árs sem þeir Jón Helgi og Hannes urðu stærstu eigendur Flugleiða í gegnum sameiginlegt félag, Oddaflug. Í dag var tilkynnt að Hannes hefði keypt út helmingshlut Jóns Helga í Oddaflugi fyrir þrjá og hálfan milljarð króna. Hannes segir þessa ákvörðun tekna á viðskiptalegum forsendum vegna þess að hann hafi mikla trú á Flugleiðum og því sem í fyrirtækinu búi. Hann langar til að helga sig þessum vettvangi og ljóst hafi verið þegar Hannes og Jón Helgi keyptu þennan hlut í byrjun árs að Hannes myndi stýra ferðinni. Hann segist því kannski vera að gera það með meiri afgerandi hætti eftir viðskiptin í dag.        Eignarhaldsfélagið Oddaflug á nú 32,22 prósent í Flugleiðum. Saxbygg, félag Saxhóls og Byggingarfélags Gunnars og Gylfa, á 28 prósent, Skildingur, sem forstjóri og framkvæmastjórar Flugleiða standa að, á 11 prósent, Sjóvá-Almennar eiga 9,9 prósent og Flugleiðir eiga 8,6 prósent í sjálfum sér. Það er ekki nema tæpt ár síðan Eimskip, sem þá var helsta viðskiptaveldið á Íslandi, réði öllu í Flugeiðum með rúmlega þriðjungshlut. Nú er 36 ára gamall maður kominn í sams konar stöðu. Hannes segir þetta spennandi verkefni og segir kaupin í dag kannski lýsa þeim breytingum sem eru að verða á viðskiptalífinu á Íslandi; hlutarnir gerast á töluvert öðrum hraða en áður.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×