Viðskipti innlent

Metvelta á fasteignamarkaði

Velta á fasteignamarkaði hefur aldrei verið meiri en síðastliðnar fjórar vikur samkvæmt hálf fimm fréttum KB banka. Í kjölfar nýrra fasteignalána frá innlánsstofnunum og lægri vaxta hefur verið slegið nýtt met á markaðinum en veltan á umræddum tíma nemur 19 milljörðum og 4,8 til 4,9 milljarðar í hverri viku að undanförnu. Þar á undan höfðu fasteignaviðskipti risið hæst í júní síðastliðnum, rétt áður en gamla húsbréfakerfið var lagt niður. Þá kom ein vika þar sem veltan náði nærri 4,9 milljörðum. KB banki segir ekki fara á milli mála að mikil endurfjármögnun hafi átt sér stað síðastliðnar vikur samhliða fasteignaviðskiptunum. Ef miðað er við 45% veðsetningarhlutfall og að greiddar séu upp allar áhvílandi skuldir þýðir það að uppgreiðslur lána hafi numið 8,5 milljörðum undanfarnar vikur. Af langsamlega mestu leyti er um lán Íbúðalánasjóðs um að ræða en markaðshlutdeild sjóðsins er um 65% af fasteignalánum. Líklegt er þó að uppgreiðslurnar séu mun meiri þar sem ekki liggja fyrir tölur um uppgreiðslur vegna endurfjármögnunar. Sömuleiðis er veðsetningarhlutfallið töluvert hærra á höfuðborgarsvæðinu en landsbyggðinni en veltan á fasteignamarkaði er að langmestu leyti á höfuðborgarsvæðinu. Bankinn telur ólíklegt að einhverjar skuldir séu yfirteknar þar sem eldri lán er mun óhagstæðari. Það virðist því vera mikil uppstokkun á lánamarkaði nú um stundir og bankarnir að sækja í sig veðrið á kostnað ríkisins.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×