Menning

Keppendur í Galaxy Fitness

Nú styttist óðum í Galaxy Fitness vaxtaræktarmótið í Laugardalshöll en það fer fram 7. til 13. nóvember næstkomandi. Fréttablaðið heldur áfram að fylgjast með tveim keppendum fyrir mótið og kíkir á hvað er að gerast í þessari viku. "Nú æfi ég enn þá meira og er með enn þá meiri læti. Allt er að smella saman þessa dagana, ég er búin að léttast meira og stöðnun búin," segir Sólveig Einarsdóttir, annar keppandanna sem Fréttablaðið tekur púlsinn á. "Ég er að reyna að byggja upp enn þá meira þol og einbeiti mér enn meira að brennslunni. Ég er mikið í stöðvaþjálfun þar sem ég set upp stöðvar með nokkrum stelpum í Betrunarhúsinu. Þar reynum við að hamast sem mest og hlaupa á milli stöðva án þess að stoppa til að fá púlsinn sem hæst upp. Síðan er ég líka að hlaupa og reyni að hlaupa kílómetrann á sem stystum tíma. Ég reyni líka að hjóla mikið því úthald er stór partur af keppninni og ég vil reyna að standa mig vel á öllum sviðum," segir Sólveig. "Nú er ég búin að herða enn meira á mataræðinu. Nammidagar eru dottnir út og einbeiti ég mér að próteini. Ég borða samt svipað og í síðustu viku, bara enn meira prótein. Það er ógeðslega erfitt að missa nammidagana. Ég sé allt í hyllingum og langar virkilega í einhvern ógeðslegan mat," segir Sólveig en er þó ekkert á leiðinni að gefast upp. "Ég ætla að klára þetta, fara alla leið og gera mitt besta." "Nú er farið að styttast í keppnina án þess að hún sé alveg á næstu grösum og þá kemur upp smá pirringur því maður sér ekki alveg fyrir endann á þessu og er svolítið í lausu lofti. Ég held samt dampi en þetta er sú vika sem maður þarf að beita sig hvað mestri hörku til að halda áfram," segir Ívar Guðmundsson hinn keppandinn í Galaxy Fitness sem Fréttablaðið fylgist með. "Ég er búinn að minnka við mig ýmsar matartegundir eins og til dæmis mjólkurvörur og kolvetni og reyni að borða meira af próteini og glúkósa. Eina kjötið sem ég borða þessa dagana eru kjúklingabringur og nammidagarnir eru alveg dottnir út. Nammidagarnir voru öryggisnet í byrjun en nú er það horfið og það er dálítið erfitt," segir Ívar sem reynir að brenna meira þessa dagana. "Ég brenni á hverjum degi til að minnka líkamsfituna og auka hlaupaþolið. Ég lyfti líka með en aðeins léttara til að missa ekki vöðvana. Ég lyfti í stuttan tíma og tek síðan skokk eða sprett eða fer á skíðavélina. Ég blanda þessu saman." Það er ekki tekið út með sældinni að losna við líkamsfituna eins og Ívar veit. "Vegna þess að fituhlutfallið hefur minnkað er mér oftar kaldara á höndunum. Ég verð að vera ansi vel klæddur og passa mig á kólnuninni því við kólnun hægist á brennslunni," segir Ívar sem er hvergi nærri hættur. "Það er aldrei valkostur að hætta. Maður hugsar bara um endamarkið og ýtir öllum efasemdum á leiðinni í burtu."
Ívar reynir að lyfta létt og brennir á hverjum degi.Mynd/E.Ól





Fleiri fréttir

Sjá meira


×