Viðskipti innlent

Lyfja eignast 66% í Litís

Lyfja hf. hefur eignast 66% hlut í Litís hf. en það félag rekur tvær keðjur apóteka í Litháen undir merkjum Farma. Með kaupunum er stigið fyrsta skrefið í útrás Lyfju, að því er segir í tilkynningu frá félaginu, en markmiðið er að víkka út tekjugrunn félagsins með því að sækja á erlenda markaði. Þá sjá stjórnendur Lyfju einnig möguleika til framtíðar að ná hagstæðari innkaupum á lyfjum og öðrum vöruflokkum sem Lyfja selur og stuðla þannig að lægra lyfjaverði hér á landi. Seljandi Litís er Líf hf. en Líf var einn af þremur stofnendum Litís árið 2000 ásamt þáverandi eigendum Lyfju. Annar þeirra, Ingi Guðjónsson, framkvæmdastjóri Lyfju, á ennþá 34% hlut í Litís. Félagið rekur í dag tuttugu apótek í Vilnius og Kaunas, tveimur stærstu borgum Litháen, og viðræður eru hafnar um kaup á fleiri. Í Litháen hefur verið mikill hagvöxtur síðustu ár og er búist við áframhaldandi miklum hagvexti í kjölfar inngöngu landsins í Evrópusambandið þann 1. maí síðastliðinn. Sigurður Ívarsson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Litís en hann starfaði að uppbyggingu félagsins á fyrstu árum þess. Stjórnarformaður Litís er Ingi Guðjónsson.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×