Innlent

Væg hlýnun eflir fiskistofna

Niðurstöður alþjóðlegs rannsóknarteymis á vegum Norðurskautsráðsins gera ráð fyrir að loftslag á Íslandi og Grænlandi hlýni næstu hundrað árin um 2 til 3 gráður á Celsius, en slík breyting gæti eflt þá fiskistofna sem mikilvægastir eru fyrir hagkerfi þjóðanna, svo sem þorsk og síld. Mismikilla áhrifa hlýnunar gætir við Norðurskautið. Á öðrum svæðum, svo sem í Kanada og í Síberíu, gæti hún numið 4 til 7 gráðum, en svo mikil breyting er sögð geta haft miklar og slæmar afleiðingar fyrir lífríkið. Niðurstöður rannsóknarteymisins voru kynntar á blaðamannafundi í gær. Meðal þess sem er spáð er að sjór muni hækka um 10 til 90 sentímetra vegna bráðnun jökulíss á Grænlandi og Norðurskautinu. Robert Correll, formaður rannsóknarhópsins, sagði að miðað við hraða bráðnunar íshettunnar á Grænlandi væri óhætt að gera ráð fyrir að hækkun sjávar yrði í efri mörkum þess sem spáð hefur verið og jafnvel enn meiri. Skýrsla rannsóknarhópsins gerir ráð fyrir að sjór gangi um 50 metra á land á flatlendi við hverja 50 sentímetra hækkun sjávarborðs.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×