Óvíst er að niðurstaða fáist í það í dag hver verður næsti borgarstjóri í Reykjavík en sá sem helst kemur til greina er Steinunn Valdís Óskarsdóttir, borgarfulltrúi Samfylkingarinnar í R-listanum, samkvæmt heimildum fréttastofu. Málið er ófrágengið og ágreiningur hefur verið innan R-listans um málið.
Framsóknarmenn í Reykjavík eru ekki sammála um hvort borgarstjórinn eigi að koma úr röðum núverandi borgarfulltrúa eða utan þeirra. Formaður Félags framsóknarmanna í Reykjavíkurkjördæmi suður vill Helgu Jónsdóttur borgarritara í starfið.
Eins og kom fram á Vísi fyrr í dag segist Vilhjálmur Vilhjálmsson, oddviti sjálfstæðismanna í borginni, hafa rætt óformlega við vinstri - græna og Framsóknarflokkinn um meirihlutasamstarf.

