Innlent

Tveir bæjarfulltrúar gefa ekki kost á sér

Prófkjör Samfylkingingarinnar í Hafnarfirði verður haldið nú á laugardag. 21 frambjóðandi er um átta sæti, fjórtán karlar og sjö konur. Nú hefur Samfylking sex bæjarfulltrúa af ellefu og er því líklegt að harðast verði barist um sex efstu sætin.

Stefnt er að því að birta úrslit prófkjörsins um klukkan 22 á laugardagskvöld. Tveir núverandi bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar gefa ekki kost á sér að nýju, Jóna Dóra Karlsdóttir og Hafrún Dóra Júlíusdóttir.

Aðrir fjórir bæjarfulltrúar gefa kost á sér til endurkjörs, en það hefur vakið eftirtekt að Gunnar Svavarsson, núverandi forseti bæjarstjórnar býður sig fram í sjötta sæti listans, baráttusætið.

Prófkjörið fer fram á skrifstofu Samfylkingarinnar, á Strandgötu 21, frá klukkan 10 til 18 á laugardag. Utankjörfundaatkvæðagreiðsla hefst í dag og fer fram á sama stað.

Hafnfirðingar, skráðir í Samfylkingu fyrir lok kjörfundar mega taka þátt í prófkjörinu.

Atkvæði teljast gild ef merkt er með tölustaf, frá 1 til 8, fyrir framan nafn þess frambjóðanda sem kjósandi vill gefa atkvæði sitt í viðkomandi sæti.

Samfylkingin stendur fyrir framboðsfundi í Álfafelli, íþróttahúsinu við Strandgötu á fimmtudagskvöld klukkan 20.30. Hver frambjóðandi mun hafa um þrjár mínútur til að kynna sig og framboðsmál.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×