Innlent

Barnabætur lækka um tvo milljarða

Ögmundur Jónasson: "Þetta eru sláandi tölur," segir Ögmundur. - Þótt gert sé ráð fyrir hækkun barnabóta í fjárlagafrumvarpinu er upphæðin ekki jafn há og árið 1991 mæld á föstu verðlagi.
Ögmundur Jónasson: "Þetta eru sláandi tölur," segir Ögmundur. - Þótt gert sé ráð fyrir hækkun barnabóta í fjárlagafrumvarpinu er upphæðin ekki jafn há og árið 1991 mæld á föstu verðlagi.

Barnabætur hafa lækkað um helming sem hlutfall af landsframleiðslu frá árinu 1991. Þær hafa einnig lækkað í krónum talið á föstu verðlagi ársins 2004, úr tæpum 7,3 milljörðum króna í liðlega 5,4 milljarða. Þetta kemur fram í skriflegu svari fjármálaráðherra við fyrirspurn Ögmundar Jónassonar, þingmanns vinstri grænna.

Ögmundur spurði um framlag ríkissjóðs til barnabóta og barnabótaauka frá árinu 1991. Hann segir að upplýsingarnar séu sláandi.

"Þetta eru sláandi tölur ekki síst í ljósi yfirlýsinga sem stjórnarflokkarnir, einkum Framsóknarflokkurinn, hafa gefið fyrir hverjar kosningar í stjórnarsamstarfi sínu um að stórauka framlag til barnabóta. Þegar þessar tölur eru skoðaðar kemur hins vegar í ljós að frá því að þessir flokkar hófu samstarf hafa barnabætur dregist saman á föstu verðlagi. Þetta á við hvort sem litið er til krónutölunnar eða sem hlutfall af vergri landsframleiðslu."

Landsframleiðslan hefur aukist mjög frá árinu 1991. Það ár námu barnabæturnar 1,22 prósentum sem hlutfall af vergri landsframleiðslu. Þetta hlutfall var komið niður í 0,6 prósent árið 2004. Samkvæmt opinberum göngum hefur frjósemi kvenna og fæðingartíðni ekki breyst mikið á umræddu tímabili og heldur aukist á allra síðustu árum.

"Hvort sem litið er á krónu­töluna á föstu verðlagi eða sem hlutfall af landsframleiðslu hafa þessir flokkar fallið á því prófi að standa við gefin fyrirheit fyrir kosningar," segir Ögmundur Jónasson.

Í frumvarpi til fjárlaga kemur fram að ráðgert er að verja alls 5,6 milljörðum króna á þessu ári en 6,8 milljörðum króna á því næsta í barnabætur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×