Hjálmar Jónsson og Jóhannes Harðarson munu á næstu dögum ganga frá samningum við félög sín, Hjálmar er á mála hjá Gautaborg í Svíþjóð en Jóhannes hjá norska félaginu Start. Ólafur Garðarsson, umboðsmaður þeirra beggja, vinnur nú að samningamálum fyrir þá báða.
"Það er búið að bjóða báðum þessum strákum framlengingu og ég reikna með því að mál þeirra skýrist nú í vikunni. Hjálmar hefur verið meiddur á nára og fór í uppskurð ekki fyrir svo löngu, en nær sér vonandi fljótt."