Innlent

Hríðarbylur og snjóflóð Vestra

Hús hafa verið rýmd í Bolungarvík, Hnífsdal, á Ísafirði, Tálknafirði og Patreksfirði vegna hættu á snjóflóðum. Sólarhringsvakt er á Veðurstofunni vegna hættunnar. Hún taldi ekki tímabært að hleypa fólkinu heim í gærkvöld. Aðstæður verða endurskoðaðar í dag. Snjóathugunarmenn fylgjast með fannferginu á Vestfjörðum. Alls hafa 38 manns verið gert að yfirgefa heimili sín á Ísafirði, í Hnífsdal, Dýrafirði og Önundarfirði. Snjóflóð féllu á snjóflóðavarnargarð við sorpeyðingarstöðina Funa í Engidal, skammt frá Ísafirði, á aðalgötu bæjarins Skutulsfjarðarbraut, á Hnífsdalsveg og við hesthúsahverfið í Hnífsdal. Á miðmætti var umferð um aðalgötuna lokað samkvæmt upplýsingum almannavarnarnefndar bæjarins. Hún ráðleggur fólki að vera ekki á ferli. Á Patreksfirði fóru um áttatíu manns frá tuttugu heimilum sínum. Hefill keyrir á undan lögreglunni á staðnum þegar hún þarf að komast leiðar sinnar um ófærar götur bæjarins. Lögreglan segir fólk flest gista hjá vinum og vandamönnum en fjöldahjálparstöð í félagsheimilinu hafi verið komið á fót. Björgunarsveit bæjarins hafi verið kölluð á Klettháls þar sem fólksbíll og jepplingur komust ekki leiðar sinnar. Þeir hafi verið dregnir heim. Í Bolungarvík voru sjö hús rýmd. Jónas Guðmundsson, lögreglustjóri sem setu á í almannavarnarnefnd, segir að samkomulag hafi náðst við íbúana tuttugu. Sumir þeirra höfðu deginum áður neitað að yfirgefa hús sín. Auk snjóflóðahættunnar á Vestfjörðum var rafmagnslaust á Barðarströnd um nokkurra klukkustunda skeið. Flutningabíll Kaupfélags Steingrímsfjarðar sat fastur um eina og hálfa klukkustund við Broddanes á Ströndum og mokstri Vegagerðarinnar þar var hætt. Hjörleifur Ólafsson hjá Vegagerðinni segir blindbyl og gríðarlegt fannfergi á Vestfjörðum. Vegir séu nær allir ófærir. Stefnt sé að mokstri en eins og spáin væri sé ólíklegt að af því verði. Veðurstofunni spáir ofankomu á Ísafirði fram á fimmtudag.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×