Innlent

Máli Fischers frestað

Bobby Fischer verður enn að bíða eftir íslenskum ríkisborgararétti. Allsherjarnefnd ákvað í morgun að fresta málinu á ný þar sem frekari rökstuðnings væri þörf. Handskrifað bréf Fischers, þar sem hann óskar eftir íslensku ríkisfangi, var tekið fyrir á fundi allsherjarnefndar í morgun og rætt hvort að leggja ætti fram frumvarp um að veita honum íslenskan ríkisborgararétt. Fulltrúi frá utanríkisráðuneytinu gerði grein fyrir afgreiðslu dvalarleyfisumsóknar Fischers og var málinu í kjölfarið frestað. Bjarni Benediktsson, formaður allsherjarnefndar, sagði í samtali við fréttastofuna að um leið og Fischer verði frjáls ferða sinna sé allt til reiðu svo að hann geti komið hingað til lands. Í bréfi sínu sem lagt var fram á fundi allsherjarnefndar heldur Fischer því fram að íslenskur ríkisborgararéttur myndi styrkja stöðu sína gagnvart japönskum stjórnvöldum. Bjarni sagði ekkert liggja fyrir í málinu sem renndi stoðum undir þá fullyrðingu. Því var ákveðið að fresta málinu frekar og skoða hvort að ástæða sé til þess að afla frekari gagna eða óska eftir því að frekari gögn verði lögð fram. Mikilvægt sé að tryggja að forsendur Fischers standist. Málið verður væntanlega tekið fyrir á næsta fundi allsherjarnefndar á mánudaginn kemur.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×