Viðskipti innlent

Skutu Bretum ref fyrir rass

Yfirmaður breska fjárfestingafélagsins Wise Speke segir að íslensku víkingarnir hafi skotið breskum fjármálasérfræðingum ref fyrir rass með því að sjá rakið viðskiptatækifæri í breska viðskiptaheiminum, sem þeir bresku sáu ekki. Þetta segir Anthony Platts í viðtali við Guardian í morgun í tilefni þess að Baugur Group gerði í gær óformlegt yfirtökutilboð í verslunarkeðjuna Somerfield. Að sögn Guardian hljóðar tilboð Baugs upp á einn milljarð punda eða um 118 milljarða íslenskra króna. Tilboðið er háð því að Baugur fái fyrst að skoða og fara yfir bókhald Somerfield og eiga fund með yfirmönnum lífeyrismála keðjunnar. Að sögn sérfræðinga úr fjármálalífi Bretlands er talið líklegt að Baugur hyggist sameina Somerfield og Iceland ef af kaupunum verður en þar liggur hundurinn grafinn, að mati Anthonys Platts. Hann segir að sölutölur og sérstaklega staða eftirlaunasjóðs Somerfield hafi dregið úr áhuga breskra fjárfesta á fyrirtækinu en með því að sameina fyrirtækið fyrirtækinu Iceland, sem Baugur á líka, séu þau vandamál úr sögunni. Somerfield er fimmta stærsta keðja matvöruverslana í Bretlandi. Ef kaupin verða að veruleika mun Baugur reka um 2400 verslanir í Bretlandi og hafa á sínum snærum fimmtíu þúsund starfsmenn í landinu. Hlutabréf í Somerfield hækkuðu um 14 prósent í gær eftir að fregnir bárust af tilboði Baugs.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×