Viðskipti innlent

Fyrsta heimsendingarapótek opnað

Lyfjaver opnar í dag fyrsta heimsendingarapótekið hér á landi sem sérhæfir sig í að afgreiða lyfseðilsskyld lyf á hagstæðu verði. Viðskiptavinir eiga kost á að fá lyfin send heim á sama verði og væru þau keypt í búðinni, hvort sem þeir búa í miðborg Reykjavíkur eða úti á landi. Ætlun Lyfjavers er að virka daga séu lyf afgreidd samdægurs heim til viðskiptavina á höfuðborgarsvæðinu en innan sólarhrings annars staðar á landsbyggðinni. Að sögn Aðalsteins Steinþórssonar, stjórnarformanns Lyfjavers, hefur fyrirtækið verið starfandi frá árinu 1999 þegar það gerðist brautryðjandi hérlendis í tölvustýrðri lyfjaskömmtun. Notandinn fær þá lyfin í plastumbúðum með mörgum lokuðum hólfum sem hvert og eitt inniheldur einn skammt. Á hólfunum eru áprentaðar upplýsingar um hvenær skammturinn skal tekinn. "Pakkningin auðveldar sjúklingum og aðstandendum þeirra að fylgjast með inntöku lyfjanna og kemur í veg fyrir rugling. Við bendum dvalarheimilum og fólki sem annast aldraða eða sjúka ættingja að beina lyfjamálum til okkar því við bjóðum upp á samkeppnishæft verð sem inniheldur einnig þessa auknu þjónustu við viðskiptavininn," segir Aðalsteinn. Lyfjaver er við Suðurlandsbraut 22 í Reykjavík.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×