Sæmi og Fischer hittust
Sæmundur Pálsson og Bobby Fischer felldu báðir tár þegar þeir hittust loks aftur eftir rúmlega þrjátíu ár á staðnum þar sem Fischer er í haldi í innflytjendabúðum yfirvalda í Japan. Það var því tilfinningaþrungin stund þegar endurfundir þeirra urðu loks að veruleika eftir langa bið. Sæmundur fékk að heimsækja vin sinn í hálfa klukkustund, eins og Guðmundur G. Þórarinsson og Myoko Watai, unnusta Fischers. Blaðamannafundur sem Sæmundur og stuðningsmenn Fischers boðuðu til með japönskum blaða- og fréttamönnum klukkan sjö í morgun stendur enn. Á morgun stendur til að hafa annan blaðamannafund með fulltrúum alþjóðlegra fjölmiðla. Suzuki, lögmaður Fischers, fundaði í morgun með Þórði Ægi Óskarssyni, sendiherra Íslands í Japan, og gerði kröfu um að fá afhent útlendingavegbréf sem gefið hefur verið út fyrir Fischer en vegabréfið hefur legið í sendiráðinu í rúma viku. Ekki var orðið við þeirri kröfu en sendiherrann kvaðst ætla að koma á framfæri spurningum frá lögmanninum til yfirvalda hér á landi.