Viðskipti innlent

Heildarvelta Bakkavarar tífaldast

Starfsmönnum Bakkavarar fjölgar úr 2500 í þrettán þúsund og heildarvelta samstæðunnar tífaldast með kaupum Bakkavarar á breska framleiðslufyrirtækinu Geest Plc. Kaupverðið nemur um 58 milljörðum íslenskra króna.  Bakkavör Group hefur gert bindandi kauptilboð í Geest og hefur stjórn breska fyrirtækisins mælt með því að hluthafar taki tilboðinu. Með kaupunum verður Bakkavör leiðandi fyrirtæki í framleiðslu tilbúinna ferskra matvæla í Bretlandi. Yfirtökutilboð hljóðar upp á 655 pens á hlut en auk þess eru greidd sjö pens á hlutinn í arðgreiðslu. Samkvæmt þessu greiðir Bakkavör rúmlega 497 milljónir punda heildarverð fyrir Geest, eða sem samsvarar 57,7 milljörðum íslenskra króna. Geest var stofnað árið 1935 og er eitt stærsta framleiðslufyrirtæki Bretlands á sviði tilbúinna matvæla. Félagið rekur 35 verksmiðjur í fimm löndum og eru starfsmenn þess um tíu þúsund talsins. Lýður Guðmundsson, forstjóri Bakkavarar, segir kaupin breyta gríðarlega miklu fyrir samstæðuna. Veltan fer í 122 milljarða króna miðað 12,7 milljarða árið áður. Hann segir það trú stjórnenda að þetta hafi mikil samlegðaráhrif sem skili sér til hluthafa félagsins.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×