Viðskipti innlent

Stjórnvöld eiga næsta leik

Stjórnvöld eiga næsta leik, vilji þau að matvælaverð lækki frekar á Íslandi. Þetta sagði Jón Ásgeir Jóhannesson, forstjóri Baugs, á aðalfundi Samtaka verslunar og þjónustu í dag. Forstjóri langstærsta verslunarfyrirtækis Íslands fjallaði um það í ræðu á aðalfundinum í dag hvað þyrfti að gerast til að matvælaverð lækkaði hérlendis. Þar sagði Jón Ásgeir að þegar talað sé um verðlag telji verslunarfyrirtækin að stjórnvöld eigi næsta leik. Og hann sagði landbúnaðarstefnuna Íslendingum mjög dýra. „Við verðum að taka tillit til þess að 70% af matarkörfunni eru íslenskar vörur og stór hluti af því er íslenskar landbúnaðarvörur. Þau höft sem eru í gangi á innflutningi landbúnaðarvara leiða til þess að samanburður í vöruverði á milli Íslands og nágrannaþjóða verður oft mjög óhagstæður,“ sagði Jón Ásgeir. Jón Ásgeir sagði að íslensk stjórnvöld hefðu það algerlega í sinni hendi að breyta þessu. Ennfremur taldi hann að einfalda þyrfti virðisaukaskattskerfið með því að koma á einni álagningarprósentu. Þá varaði hann við nýjum samkeppnislögum. Fyrst menn segi að þau eigi að vera til gagns þá kvaðst Jón Ásgeir ekki skilja hvers vegna sé verið að setja þrengri samkeppnislög en sést t.a.m. í nágrannalöndunum. „Það mun ekki verða til þess að fá erlendar verslunarkeðjur inn á markaðinn,“ sagði Jón Ásgeir.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×