Viðskipti innlent

Fyrirtækjum fækkað úr 75 í 31

Fyrirtækjum í Kauphöll Íslands hefur fækkað úr 75 árið 2000 niður í 31 núna og aðeins þrjú sjávarútvegsfyrirtæki verða skráð þar þegar Samherji á Akureyri verður afskráður í sumar. Sú afskráning gerist í kjölfar yfirtökutilboðs aðaleigendanna og samstarfsfélaga þeirra á öllu öðru hlutafé í félaginu. Sjávarútvegsfyrirtækin eru því á hraðri útleið úr Kauphöllinni. Fyrir aðeins þremur árum voru sextán sjávarútvegsfyrirtæki þar á skrá og réðu þau yfir u.þ.b. 46 prósentum heildarkvótans en við brotthvarf Samherja lækkar sú tala um u.þ.b. 20 prósent. Fyrirtækin sem eftir verða í Kauphöllinni þegar Samherji fer þaðan eru HB Grandi, Vinnslustöðin og Þormóður rammi - Sæberg. Árið 1992, sem í raun má telja fyrsta ár markaðarins, voru ellefu fyrirtæki skráð í Kauphöllinni og fjölgaði þeim nokkuð jafnt og þétt upp í 75 árið 1999 og var sami fjöldi árið eftir. Síðan hefur þeim fækkað jafnt og þétt niður í 31. Þá er hópur þungavigtarfélaganna orðinn býsna einsleitur, eða fjármálafyrirtæki. KB banki er langstærsta félagið, metinn á 340 milljarða króna, Íslandsbanki er næststærstur, metinn á rúma 150 milljarða og Landsbankinn upp á 130 milljarða eftir nýafstaðið hlutafjárútboð. Lyfjafyrirtækið Actavis er svo í fjorða sæti, metið á tæpa 120 milljarða. Þrátt fyrir mikla fækkun fyrirtækja í Kauphöllinni hefur markaðsvirði þeirra aldrei verið meira en í fyrra þegar það hátt í tvöfaldaðist frá árinu áður. En þrátt fyrir það segja fjárfestar nú að fæð fyrirtækjanna á markaðnum og einhæfni þeirra sé að verða til óþæginda því með þessu móti geti þeir ekki dreift sem skildi áhættu sinni.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×