Viðskipti innlent

Sáttaumleitanir í kringum Ker

Boðað var til fundar í stjórn Festingar í gærkvöld vegna deilna sem hafa staðið um hlutafjáraukningu félagsins 22. mars sl. Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins vilja hluthafar vinda ofan af þeirri stöðu sem upp er komin í kringum félagið. Festing rekur fasteignir dótturfélaga Kers, Olíufélagsins Essó og Samskipa. Innan Kers hefur ríkt óeining milli eigenda Grettis og Ólafs Ólafssonar, aðaleigenda Kers. Þau átök hafa náð inn í Festingu. Óttuðust eigendur Grettis að Ólafur næði að breyta valdahlutföllum í Keri þannig að hann myndi ráða yfir 2/3 hluta félagsins og gæti breytt samþykktum þess. Átti það að gerast í gegnum Festingu og því hafi hlutafjáraukningin, þar sem Grettismenn næðu meirihluta í félaginu, verið löglegur varnarleikur. Stjórnendur Kers segja þetta misskilning og að ekki sé hægt að breyta valdahlutföllum í Keri í gegnum Festingu. Til þess þurfi að gefa út nýtt hlutafé í Keri og það sé ekki hægt nema með samþykki 2/3 hluthafa. Grettismenn ráði yfir rúmum 34% og því þurfi samþykki þeirra. Taka á fyrir lögbannsbeiðni á hlutafjáraukninguna hjá Sýslumanninum í Reykjavík í dag. Í gær bjuggust menn við að þeirri beiðni yrði frestað væri vilji til að vinda ofan af málinu.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×