Erlent

Kosningarútur liðin tíð?

Hjálp! Það eru blaðamenn á eftir mér! Þannig gæti harmakvein breskra stjórnmálamanna hljómað en þeir sjá sér þann kost vænstan að forðast bresku pressuna í miðri kosningabaráttunni. Breskir stjórnmálaleiðtogar gera allt sem þeir geta til að forðast pressuna á ferðalögum sínum fyrir þingkosningarnar í næsta mánuði. Breskir fjölmiðlar eru gríðarlega áhrifamiklir og eru jafnvel taldir hafa ráðið úrslitum í þingkosningum. Spunakerlingar breskra stjórnmálamanna hafa nú komist að þeirri niðurstöðu að líklega sé það ekki besta leiðin fyrir þá að koma skilaboðum sínum á framfæri að tala við blaðamenn, og því forðast stjórnmálamenn þá eins og heitan eldinn. Þeir ferðast til að mynda á milli kosningasamkundna á þyrlum en ekki í kosningarútum eins og hingað til. Á samkundunum taka þeir við spurningum héraðsblaðamanna en ekki grimmra fulltrúa stórra fjölmiðla. Í ofanálag segir í breskum fjölmiðlum að aðeins heitum stuðningsmönnum sé hleypt inn á samkundurnar, jafnvel skjóti sömu andlitin upp kollinum á hverri samkundunni á fætur annarri. Það lið er kallað leigustuðningsfólk, eða „rent-a-crowd“. Hvort að þetta skilar sér með einhverjum hætti er hins vegar með öllu óljóst. Það sem er ljóst er að umfjöllun breskra fjölmiðla er fyrir vikið hvorki minni né óvægnari.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×