Erlent

Blair laug og laug

Blair laug, og laug svo aftur, segir á forsíðu breska dagblaðsins Daily Mail í dag. Guardian segir að svo virðist sem bæði þing og ríkisstjórn hafi verið blekkt í aðdraganda stríðsins í Írak. Ástæða gagnrýninnar eru leyniskjöl sem lekið hefur verið í fjölmiðla. Það er lögfræðiálit dómsmálaráðherra Bretlands sem lekið var í fjölmiðla og valdið hefur sprengingu, viku fyrir þingkosningar. Í skýrslunni er varpað fram spurningum um lögmæti stríðsins í Írak og meðal annars sagt að dómstóll gæti komist að þeirri niðurstöðu að ályktanir öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna hafi ekki heimilað stríðið. Skýrslan var tilbúin í byrjun mars, áður en Bretar og Bandaríkjamenn gáfust upp á því að fá öryggisráðið til að samþykkja nýja ályktun. Þegar þær tilraunir sigldu í strand birti dómsmálaráðherrann Goldsmith aðra skýrslu þar sem allar efasemdir um lögmæti stríðsins voru horfnar. Breskir fjölmiðlar og pólitískir andstæðingar Blairs velta því fyrir sér hvort að þrýstingi hafi verið beitt til að fá Goldsmith til að skipta um skoðun en hann hafnar því með öllu. Málið hefur vakið mikla athygli og það kemur sér illa fyrir Blair. Stríðið í Írak er Akkilesarhæll hans í kosningabaráttunni og meginástæða þess að trúverðugleiki hans meðal kjósenda er svo gott sem enginn. Næsta víst er að Blair tekst ekki að leggja megináherslu á innanríkismál á síðustu dögum kosningabaráttunnar fyrir vikið. Hægrablaðið Daily Mail segir Blair hafa logið í fyrirsögn í dag og vinstrablaðið Guardian segir skýrsluna benda til þess að bæði þing og ríkisstjórn hafi verið blekkt í aðdraganda stríðsins. Blair vísaði því með öllu á bug í morgun og til að reyna að draga úr skaðanum var skýrsla Goldsmiths birt í heild sinni á heimasíðu breska forsætisráðuneytisins í morgun. Þó að öryggt megi telja að Írak verði vegna þessa meginkosningabaráttumálið næstu vikuna getur Blair huggað sig við það að kannanir benda til þess að stríðsreksturinn hafi fremur lítil áhrif á afstöðu almennings í kosningunum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×