Innlent

Lausir úr prísund og komnir heim

Skipverjarnir tveir af togaranum Hauki ÍS sem handteknir voru í janúar síðastliðnum í Bremerhaven með mikið magn fíkniefna hafa verið látnir lausir og eru komnir heim. Tvímenningarnir voru handteknir við venjubundna leit tollvarða í Þýskalandi og fundust þá sjö kíló af kókaíni og hassi í klefum mannanna. Hafa þeir setið í gæsluvarðhaldi síðan þá og við þeim blasti allt að 15 ára fangelsisdómur ef þýskur dómstóll hefði fundið þá seka. Enga skýringu er á því að fá hvers vegna mennirnir voru látnir lausir þremur mánuðum eftir handtökuna en þýska lögreglan gefur engar upplýsingar. Ásgeir Karlsson, yfirmaður fíkniefnalögreglunnar í Reykjavík, furðar sig einnig á stöðu mála en alla jafna eru menn ekki látnir lausir eftir að hafa verið teknir með þetta mikið magn en málið þykir stórt á þýskan mælikvarða sem gerir lausn mannanna enn undarlegri. Ásgeir sagði ekki ólíklegt að Ríkislögreglustjóri óski frekari upplýsinga frá þýskum yfirvöldum en engin ákvörðun hefði þó enn verið tekin enda málið tæknilega ekki á könnu lögregluyfirvalda hérlendis.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×