Viðskipti innlent

Ekki stefnt að sjónvarpsrekstri

Útgefendur Blaðsins og Skjár einn hafa í sameiningu keypt tvær útvarpsstöðvar. Ritstjóri Blaðsins segir samstarfið ekki þýða að farið verði út í sjónvarpsrekstur. Félögin Ár og dagur og Íslenska sjónvarpsfélagið hafa keypt 97 prósent hlutafjár í Pyrit-fjölmiðlum, en fyrirtækið rekur útvarpsstöðvarnar KissFM og X-FM. Í yfirlýsingu frá kaupendunum segir að báðar stöðvarnar hafi verið í örum vexti. Karl Garðarsson, ritstjóri Blaðsins, sagði í samtali við fréttastofuna að rekstur stöðvanna verði áfram í óbreyttri mynd og með sama starfsfólki. Hann segir engin innbyrðistengsl á milli kaupendanna. Hann segir ekki standa til að samnýta félögin þrjú, til dæmis með sameiginlegri auglýsingasölu eða slíkt. Þá segir hann samstarfið við Íslenska sjónvarpsfélagið ekki þýða að Ár og dagur, útgefandi Blaðsins, sé að fara út í sjónvarpsrekstur.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×