Fálkaorðan orðin glingur Habsburgara 27. maí 2005 00:01 Þann 13. maí síðastliðinn fékk Francesca von Habsburg erkihertogaynja frá Austurríki íslensku fálkaorðuna, riddarakross, fyrir framlag til lista og menningar. Hún er mikil vinkona Dorritar Moussaieffs eiginkonu Ólafs Ragnars Grímssonar forseta Íslands og hefur verið viðloðandi hér á Íslandi undanfarin misseri. Framlag hennar til lista og menningar felst - að því er manni skilst - helst í því hingað til að hún hefur stutt nokkuð við bakið á íslenskum tónlistarmönnum sem eru að leita fyrir sér erlendis. Að auki mun hún hafa komið eitthvað við sögu við skipulagningu þeirrar listahátíðar sem nú stendur yfir. Því hún hefur sambönd, sem kallað er, og eitthvað af erlendu listafólki sem hér hefur verið kynnt að undanförnu mun komið hingað fyrir hennar milligöngu. Að því er manni skilst. Nú! Ég verð að viðurkenna: mér finnst svolítið ... ja, hér er erfitt að velja rétta orðið ... ætli skondið nái því ekki svona nokkurn veginn ... kurteislegt og gott orð, þannig séð ... En mér finnst sem sagt skondið - jú, svo vægt sé til orða tekið! - að Habsburgarættin sé nú farin að fá fálkaorður á Íslandi fyrir framlag til lista og menningar hér á landi. Því annað sýslaði það fólk með hér fyrr á tíð en íslenska menningu. Og svo má auðvitað spyrja sig hvort framlag þessarar vafalaust ágætu konu til menningar hér sé í rauninni þvílíkt - eftir þessu fáu misseri sem liðin eru síðan hún kynntist okkur og við henni - að hún verðskuldi virkilega fálkaorðuna. Hvort aðrir verði ekki ströggla lengur í okkar þágu áður en þeir fá fálkaorðuna - en heita ekki Habsburg? Ég viðurkenni líka - þegar nefnt er orðið Habsburg, þá þarf ég að glíma við ákveðna fordóma. Ég þoli nefnilega ekki Habsburgar-ættina. Það er ljótt að segja þetta og eiginlega má auðvitað ekki segja þetta. En svona er þetta nú samt - og má maður nú ekki leyfa sér örlitla órökstudda fordóma öðruhvoru? Það geri ég að minnsta kosti í þessu tilfelli. Og held því statt og stöðugt fram að Habsburgara-ættin hafi öll þau þúsund ár sem hún hefur verið við lýði nánast ekkert lagt til málanna í sögunni annað en valdapot í eigin þágu og allskonar vesin þarafsprettandi. Ennfremur hverskonar hégóma og hirðmennsku - sem er orð náskylt hjarðmennsku - í merkingunni hjarðlíf. Sem er gott fyrir kindur en ósæmilegt fyrir manneskjur. Þetta er auðvitað alhæfing, ósanngjörn og óréttlát - ég veit það vel. Ég er sjálfur þeirrar skoðunar að í rauninni sé fáránlegt að tala um persónuleg einkenni fjölskyldna eða ætta lengur en sem svarar þremur eða í hæsta lagi fjórum kynslóðum. Í fjórða lið er hver einstaklingur orðinn svo blandaður að það er yfirleitt tómt mál að tala um að hann hafi erft einhver eindregin persónueinkenni frá langafa sínum eða langömmu. Hvað þá langalangafa eða langalangömmu. Einhvers konar mórall í uppeldi innan fjölskyldna getur vissulega viðhaldist lengur og skipt máli um hvernig einstaklingar fjölskyldunnar verða, en hér sem annars staðar gildir þó fyrst og fremst hið fornkveðna - að hver er sinnar gæfu smiður. Og þótt veraldleg gæfa Habsburgaranna hafi sannarlega verið mikil gegnum tíðina, þá finnst mér skorta töluvert á andleg afrek hennar - sérstaklega miðað við hve þrálát hefur verið tilvist ættarinnar og setur hennar í hásætum hingað og þangað um Evrópu. Það er auðvitað dónaskapur að halda þessu fram - og ég er strax genginn í berhögg við sjálfan mig - þá kenningu að tilgangslaust og í reynd fáránlegt sé að eltast við einhverja sameiginlega eiginleika ætta eða fjölskyldna lengra en sem nemur þremur eða fjórum kynslóðum. En það er líka allt í lagi að ganga stundum í berhögg við sjálfan sig. Bara ef maður gerir sér grein fyrir því og gerir ekki mótsagnakenndar skoðanir sínar að trúaratriðum. Sem þá fara óhjákvæmilega að rekast harkalega á. Og vissulega er saga Habsburgara löng og merkileg - hvort sem við lítum á hana sem eina samfellda ætt eða bara sem samansafn af einstaklingum. Ef ég ætti nú að hafa hér örlitla sögustund, þá mundi hún byrja svo: Hinir fyrstu Habsburgarar koma fram á sjónarsviðið á tíundu öld. Þá var Gúntram nokkur ríki greifi og lénsherra yfir svæði sem náði yfir part af Sviss og inn í suðvesturhluta Þýskalands. Sonarsonur hans hét Radbot frá Klettgau og hann hóf byggingu kastala undir sig sem hann nefndi Habichtsburg eða Haukskastala - ættin er semsagt kennd við hauk eða fálka alveg eins og Sjálfstæðisflokkurinn. Og þannig séð kannski ekkert nema eðlilegt að Francesca von Habsburg fái fálkaorðu. Það var reyndar sonarsonur Radbots þessa sem fyrstur varð til að kenna sig beinlínis við kastalann. Hann hét Otto og nefndi sig Otto von Habsburg - en "von" þýðir náttúrlega bara "frá". Þessi Otto fæddist 1111 og hann og afkomendur hans reyndust iðnir greifar svo hin nýja Habsburgarætt efldist brátt að íþrótt og frægð, bæði í Sviss og í Þýskalandi. Og á 13. öld - einmitt um sama bil og Sturlungaöld stóð á Íslandi - þá var greifi af Habsburg Rudolph nokkur sem reyndist klækjarefur hinn mesti og mjög sýnt um að auka lendur sínar með allskonar bellibrögðum og misjafnlega pottþéttum samningum við nágranna sína. Árið 1273 var hann meira að segja kjörinn til konungs yfir Þýskalandi þótt ríki hans næði raunar alls ekki yfir allt Þýskaland. Með í kaupunum fylgdi keisaratitill yfir hinu "heilaga rómverska heimsveldi" sem svo var kallað - en það var upphaflega ríki Karlamagnúsar kóngs í Frakklandi. Í aldanna rás hafði titillinn færst yfir á hinn æðsta fursta í þýsku smáríkjunum en það er annars svo flókin saga að ég nenni ekki að reyna að rekja hana. Nema hvað segja má eins og Voltaire að "hið heilaga rómverska heimsveldi" var aldeilis furðuleg mótsögn - þar sem það var hvorki heilagt né rómverskt né heimsveldi. Látum duga að taka fram að Habsburgurum var smátt og smátt ýtt út úr Sviss, þar sem hin upphaflega Fálkaborg var, en í Þýskalandi sjálfu réðu Habsburgarar miklu í margar aldir. Og ekki aðeins Þýskalandi því smátt og smátt eignuðust Habsburgarar líka krúnur hingað og þangað um Evrópu - aðallega í Mið-Evrópu, svo sem Austurríki, Ungverjalandi og Bæheimi, en líka í Niðurlöndum sem þá voru enn ekki aðskilin í Hollandi og Belgíu. Og svo á Spáni. Öll þessi hásæti eignuðust Habsburgarar með hjónaböndum og mægðum við aðrar konungsættir en lítt eða ekki með styrjöldum. Þeir sendu prinsessurnar sínar í hjónasængur aðals- og kóngsætta um alla Evrópu og fengu aðrar prinsipissur í sínar sængur í staðinn. Oftar en ekki fengu þeir svo örfáum kynslóðum seinna aðrar prinsessur úr sömu ættum - þegar hinar fyrri voru orðnar gamlar kerlingar eða dauðar - og þær nýju voru þá oftar en ekki með meira eða minna Habsburgarblóð í æðum. Þannig gekk þetta - enda er það ein staðlausa alhæfingin sem maður ætti alls ekki að hafa um Habsburgara en gerir samt: að þeir hafi verið meiri vígamenn í samkvæmislífinu en á hinum raunverulega vígvelli þar sem blóðið rann. Til dæmis náðu þeir Habsburgarar konungsstólnum á Spáni þegar Jóhanna, einkadóttir spænsku kóngshjónanna Ísabellu og Ferdínands, þeirra sem sendu Kristófer Kólumbus af stað til Ameríku - þegar Jóhanna þessi þurfti eiginmann og þá var kallaður til Filippus fríði, sonur Maximilians Habsburgarakeisara, en hann var þá fursti í Niðurlöndum. Jóhanna gekk síðan af göflunum og heitir í mannkynssögunni "Jóhanna brjálaða" en eiginmaður hennar Filippus var lýstur kóngur á Spáni í upphafi fimmtándu aldar - og síðan tók við krúnunni sonur þeirra Jóhönnu. Sá hét Karl og var líka keisari í Þýskalandi. Þá stóðu yfir siðaskipti í Evrópu og Karl keisari og Spánarkóngur var einmitt sá merkismaður sem Jón Arason Hólabiskup vonaði í lengstu lög að myndi leggja sér lið við að halda Íslandi kaþólsku. En fór á annan veg, enda hafði Karl öðrum og stærri löndum að sinna. Karl þessi frá Habsburg var annars dæmigerður þjóðagrautur eins og Habsburgarar voru orðnir eftir stöðugar mægðir við aðrar ættir mektarfólks í Evrópu í margar aldir. Þótt hann væri Habsburgari í föðurætt var hann samt enginn Þjóðverji. Móðurmál hans var franska - mál yfirstéttarinnar í Niðurlöndum þar sem hann ólst upp. Hann elskaði París sem hann sagði að væri ekki bara borg, heldur heill alheimur. En alla ævi átti hann samt í stöðugri baráttu og stundum stríðsátökum við kónginn af Frakklandi. Móðir Karls var spænsk en hann var samt heldur enginn Spánverji og þótt Spánarkrúna yrði honum með tímanum hugleiknari en meint keisaradæmi hans í Þýskalandi, þá leið honum í raun og veru aldrei vel á Spáni og fannst hann alla tíð vera þar útlendingur. Hann sagði sjálfur um þetta mál - hverrar þjóðar hann væri: "Ég tala spænsku við Guð, ítölsku við konur, frönsku við karlmenn og þýsku við hestinn minn!" Eftir að Karl dó varð bróðir hans keisari í Þýskalandi en sonur hans tók á hinn bóginn við konungstigninni á Spáni og þannig ríktu tvær aðskildar greinar Habsburgaraættarinnar yfir tveimur stórveldum Evrópu á næstunni. Þýskalandsgreininni var að vísu smátt og smátt rutt burt úr hinu eiginlega Þýskalandi og völd hennar miðuðust brátt æ meira við Austurríki og Ungverjaland. Ríki þeirra þar varð eitt af helstu stórveldum Evrópu í nokkrar aldir - allt fram á tuttugustu öld. Spánargreinin hins vegar, það er saga að segja frá henni. Þar ríktu Habsburgarar í hátt í tvær aldir - reyndar í Portúgal líka um tíma - en að lokum var ættin orðin svo menguð af innræktun að síðasti Habsburgarinn á Spáni var ekki beint glæsilegur pappír. "Innræktun" er að minnsta kosti vinsæl skýring og mála sannast að Habsburgararnir höfðu þá tengst svo innbyrðis hver öðrum og örfáum öðrum háaðalsættum í Evrópu að það hlaut að enda með ósköpum, ef eitthvað er á annað borð hæft í kenningum um að skyldleikaræktun sé óholl. Þessi síðasti Spánarkóngur af Habsburgarætt, hann var til dæmis sonur Filippusar fjórða af Spáni - sem náttúrlega var Habsburgari - en móðir hans var Maríana frá Austurríki sem var annaðhvort systur- eða bróðurdóttir Filippusar. Þessi kóngur hét Karl II eða Carlos eins og hann var kallaður á Spáni - og settist í hásætið þegar faðir hans Filippus andaðist eftir sukksamt líferni árið 1665. Þá var Carlos ekki nema tæpra fjögurra ára og reyndar hreint ekki efnilegur. Það var ljóst frá ungra aldri að hann var bæði óvenjulega ófríður og nokkuð illa vanskapaður - og þjáðist af fjölmörgum alvarlegum kvillum sem ég kann ekki að nefna. Seinna kom svo á daginn að andlegum þroska hans var verulega ábótavant. Óljóst er hvort það megi telja hann beinlínis vangefinn - en hann var að minnsta kosti tröllheimskur og afar svifaseinn í hugsun, svo pent sé til orða tekið. Framan af valdatíma Habsburgara á Spáni hafði Spánn verið helsta stórveldi heims - fyrst og fremst í krafti þess þrotlausa auðs sem rænt var í Ameríku eftir að Ísabella og Ferdinand höfðu vit á að kosta Kólumbus í siglingu sína. En undanfarnir Habsburgarar höfðu sóað mjög auði landsins og öllum kröftum, svo þegar Carlos II kom til ríkis, svona barnungur, þá var Spánn kominn að fótum fram. Og hnignunin hélt áfram undir stjórn Carlosar II enda var hann allsendis óhæfur til að stjórna nokkrum hlut, hvað þá stórveldi, og var heldur ekki gefið að velja sér hæfari menn til að stýra ríkinu í sinn stað. Árið 1679, þegar hann var 18 ára, þá gekk Carlos að eiga Maríu Lovísu sem var bróðurdóttir Loðvíks 14. Frakkakonungs. Í tilbót við allt annað sem hrjáði Carlos kóng, þá reyndist hann getulaus líka og gat með engu móti gert drottningunni barn. Hún fylltist þá þunglyndi sem hún reyndi að vinna á með endalausu áti - og varð á skömmum tíma svínslega feit. Það þoldi heilsa hennar ekki og hún dó eftir tíu ára hjónaband. Carlos grét lát hennar en gekk samt fljótlega að eiga systur keisaraynjunnar í Austurríki. Hún hét María Anna og gat ekkert frekar vakið ástríður hins kyndaufa kóngs. Það var því ljóst að ættin myndi deyja út á Spáni þegar hinu hrjáða lífi Carlosar lyki. Hann gerðist reyndar æ heilsuveilli jafnt á sál sem líkama eftir því sem hann nálgaðist fertugt. Hegðun hans varð stöðugt skrýtnari og einu sinni krafðist hann þess til dæmis að lík allra látinna ættingja sinna yrðu grafin upp því hann langaði að sjá fólkið sitt einu sinni enn. Það var látið eftir honum, því hann var þrátt fyrir allt kóngur, og svo góndi hann á misjafnlega rotna líkama foreldra sinna og síðan fyrri eiginkonu, hinnar akfeitu Mariu Lovísu. Þá vatnaði hann víst músum, þegar hann sá það lík. Síðustu tvö ár ævinnar var hann orðinn alveg lamaður, sköllóttur, heyrnarlaus, nærri tannlaus og eiginlega alveg blindur. Hann var líka farinn að fá flogaköst. Hann dó árið 1700, nokkrum dögum áður en hann varð 39 gamall. Og braust þá út blóðugt stríð á Spáni til að ákvarða arftaka hans. Skyldleikaræktunin sem einkenndi Habsburgarana hafði ekki jafn slæmar afleiðingar í Austurríki, þar sem ættin var miklu lengur á keisarastóli, þótt vissulega væru ekki allir Habsburgararnir þar menn mikilla sæva. En Austurríki undir stjórn Habsburgara átti altént sitt blómaskeið í menningu, sérstaklega tónlist. Á ofanverðri 18. öld og öndverðri þeirri 19. störfuðu þar ýmsir merkustu tónlistarmenn heims - látum duga að nefna Mozart sem lengi bjó í Vínarborg. Sumir hafa viljað þakka Habsburgurum einhvern hluta af tónlistarblómstrinu. En það var reyndar sama sagan um alla Mið-Evrópu og þegar öllu er á botninn hvolft verður að teljast mjög umdeilanlegt hversu vel Habsburgarar reyndust til dæmis Mozart - sjá bara kvikmyndina Amadeus. Og ríkið varð á endanum staðnað skrifræðis- og kúgunarapparat. Franz Kafka og martraðarkenndar sögur hans eru ekki síðri vitnisburður um móralinn í Habsburgarríkinu á sínum efstu dögum heldur en Richard Strauss og glaðlegir Vínarvalsar. Alla vega endaði saga Habsburgara með því að í fyrri miðri fyrri heimsstyrjöldinni dó hinn ævaforni Frans Jósef keisari sem þá hafði setið á valdastóli lengur en elstu menn mundu. Hann átti ekki son á lífi og sá sem útnefndur hafði verið arftaki hans, frændi hans Franz Ferdinand, hann hafði verið myrtur í Sarajevo árið 1914. Morðið á honum markaði sem kunnugt er upphaf heimsstyrjaldarinnar. Því tók við keisaratigninni annar frændi Frans Jósef, Karl hét hann, og var ungur að árum en eftir að austurríska keisaradæmið hrundi við lok fyrri heimsstyrjaldarinnar þá neyddist Karl keisari til að segja af sér, hrökklaðist úr landi og dó reyndar skömmu síðar. Elsti sonur hans hét Otto og varð höfuð Habsburgarættarinnar sem lengi vel gerði enn tilkall til þeirra hásæta sem ættin hafði tapað í Evrópu. Hann var óþreytandi að tala sínu máli næstu áratugina - það var bara enginn að hlusta. Rétt er og skylt að geta þess að Otto von Habsburg bjó um tíma í Hitlers-Þýskalandi en var alla tíð litinn hornauga af Adolf Hitler. Hvort sem ástæðan var sú að hann óttaðist valdatilkall Habsburgara eða þá að Hitler hafði alist upp í Austurríki á efstu dögum Habsburgara - og leið ekki vel á þeim dögum. Altént fór Otto von Habsburg að lokum til Ameríku og bjó þar á heimsstyrjaldarárunum síðari. Otto afsalaði sér eftir stríðið öllu tilkalli til keisaradóms yfir Austurríki gegn því að fá að snúa aftur til landsins. Hann átti fimm dætur áður en hann eignaðist son, Karl nokkurn, sem fæddist 1961. Sá Karl verður að vísu seint keisari en hefur titilinn erkihertogi fyrir þá sem láta sig titlatog varða - og ber þó þetta söguríka nafn - skulum við segja - nafn: Karl von Habsburg. Og það er þessi Karl sem gekk árið 1993 að eiga Francescu þá sem nú hefur verið sæmd íslensku fálkaorðunni. Hún var upphaflega bara lítil barónessa frá Sviss - þaðan sem Habsburgarættin er jú upprunnin - og hét Francesca von Thyssen-Bornemisza áður en hún varð erkihertogaynja von Habsburg. Og tilheyrir því ekki sjálfri ættinni nema gegnum hjónaband. Því ætti ég ekki að sleppa lausum öllum mínum fyrrnefndu fordómum í garð Habsburgara þegar þessi kona berst í tal. En samt - hún er nú Habsburgari samt. Og getur nú skreytt sig íslensku fálkaorðunni í viðbót allt annað glingur sem fylgir nafninu ... Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Á kassanum Illugi Jökulsson Mest lesið „Þetta er algerlega galið“ Hjörtur J. Guðmundsson Skoðun Stórveldi eiga hagsmuni en ekki vini: Deilur tveggja NATO ríkja um Grænland Hilmar Þór Hilmarsson Skoðun Vinnulag í rannsóknaverkefnum er ekki vísbending um stjórnarhætti þess sem borgar Haraldur Ólafsson Skoðun Hvernig getum við stigið upp úr sorginni? Birna Guðný Björnsdóttir Skoðun Fersk fyrirheit: máttur nýársheita og skýrra markmiða Árni Sigurðsson Skoðun Er þetta alvöru? Bjarni Karlsson Skoðun Opið bréf til valkyrjanna þriggja Björn Sævar Einarsson Skoðun Opið bréf til forystu Kennarasambands Íslands (KÍ): Endurskoðum aðferðafræði verkfallsins Valgerður Bára Bárðardóttir Skoðun „Forðastu múslímana,“ sögðu öfgahægrimenn mér Guðni Freyr Öfjörð Skoðun Gott knatthús veldur deilum Stefán Már Gunnlaugsson Skoðun
Þann 13. maí síðastliðinn fékk Francesca von Habsburg erkihertogaynja frá Austurríki íslensku fálkaorðuna, riddarakross, fyrir framlag til lista og menningar. Hún er mikil vinkona Dorritar Moussaieffs eiginkonu Ólafs Ragnars Grímssonar forseta Íslands og hefur verið viðloðandi hér á Íslandi undanfarin misseri. Framlag hennar til lista og menningar felst - að því er manni skilst - helst í því hingað til að hún hefur stutt nokkuð við bakið á íslenskum tónlistarmönnum sem eru að leita fyrir sér erlendis. Að auki mun hún hafa komið eitthvað við sögu við skipulagningu þeirrar listahátíðar sem nú stendur yfir. Því hún hefur sambönd, sem kallað er, og eitthvað af erlendu listafólki sem hér hefur verið kynnt að undanförnu mun komið hingað fyrir hennar milligöngu. Að því er manni skilst. Nú! Ég verð að viðurkenna: mér finnst svolítið ... ja, hér er erfitt að velja rétta orðið ... ætli skondið nái því ekki svona nokkurn veginn ... kurteislegt og gott orð, þannig séð ... En mér finnst sem sagt skondið - jú, svo vægt sé til orða tekið! - að Habsburgarættin sé nú farin að fá fálkaorður á Íslandi fyrir framlag til lista og menningar hér á landi. Því annað sýslaði það fólk með hér fyrr á tíð en íslenska menningu. Og svo má auðvitað spyrja sig hvort framlag þessarar vafalaust ágætu konu til menningar hér sé í rauninni þvílíkt - eftir þessu fáu misseri sem liðin eru síðan hún kynntist okkur og við henni - að hún verðskuldi virkilega fálkaorðuna. Hvort aðrir verði ekki ströggla lengur í okkar þágu áður en þeir fá fálkaorðuna - en heita ekki Habsburg? Ég viðurkenni líka - þegar nefnt er orðið Habsburg, þá þarf ég að glíma við ákveðna fordóma. Ég þoli nefnilega ekki Habsburgar-ættina. Það er ljótt að segja þetta og eiginlega má auðvitað ekki segja þetta. En svona er þetta nú samt - og má maður nú ekki leyfa sér örlitla órökstudda fordóma öðruhvoru? Það geri ég að minnsta kosti í þessu tilfelli. Og held því statt og stöðugt fram að Habsburgara-ættin hafi öll þau þúsund ár sem hún hefur verið við lýði nánast ekkert lagt til málanna í sögunni annað en valdapot í eigin þágu og allskonar vesin þarafsprettandi. Ennfremur hverskonar hégóma og hirðmennsku - sem er orð náskylt hjarðmennsku - í merkingunni hjarðlíf. Sem er gott fyrir kindur en ósæmilegt fyrir manneskjur. Þetta er auðvitað alhæfing, ósanngjörn og óréttlát - ég veit það vel. Ég er sjálfur þeirrar skoðunar að í rauninni sé fáránlegt að tala um persónuleg einkenni fjölskyldna eða ætta lengur en sem svarar þremur eða í hæsta lagi fjórum kynslóðum. Í fjórða lið er hver einstaklingur orðinn svo blandaður að það er yfirleitt tómt mál að tala um að hann hafi erft einhver eindregin persónueinkenni frá langafa sínum eða langömmu. Hvað þá langalangafa eða langalangömmu. Einhvers konar mórall í uppeldi innan fjölskyldna getur vissulega viðhaldist lengur og skipt máli um hvernig einstaklingar fjölskyldunnar verða, en hér sem annars staðar gildir þó fyrst og fremst hið fornkveðna - að hver er sinnar gæfu smiður. Og þótt veraldleg gæfa Habsburgaranna hafi sannarlega verið mikil gegnum tíðina, þá finnst mér skorta töluvert á andleg afrek hennar - sérstaklega miðað við hve þrálát hefur verið tilvist ættarinnar og setur hennar í hásætum hingað og þangað um Evrópu. Það er auðvitað dónaskapur að halda þessu fram - og ég er strax genginn í berhögg við sjálfan mig - þá kenningu að tilgangslaust og í reynd fáránlegt sé að eltast við einhverja sameiginlega eiginleika ætta eða fjölskyldna lengra en sem nemur þremur eða fjórum kynslóðum. En það er líka allt í lagi að ganga stundum í berhögg við sjálfan sig. Bara ef maður gerir sér grein fyrir því og gerir ekki mótsagnakenndar skoðanir sínar að trúaratriðum. Sem þá fara óhjákvæmilega að rekast harkalega á. Og vissulega er saga Habsburgara löng og merkileg - hvort sem við lítum á hana sem eina samfellda ætt eða bara sem samansafn af einstaklingum. Ef ég ætti nú að hafa hér örlitla sögustund, þá mundi hún byrja svo: Hinir fyrstu Habsburgarar koma fram á sjónarsviðið á tíundu öld. Þá var Gúntram nokkur ríki greifi og lénsherra yfir svæði sem náði yfir part af Sviss og inn í suðvesturhluta Þýskalands. Sonarsonur hans hét Radbot frá Klettgau og hann hóf byggingu kastala undir sig sem hann nefndi Habichtsburg eða Haukskastala - ættin er semsagt kennd við hauk eða fálka alveg eins og Sjálfstæðisflokkurinn. Og þannig séð kannski ekkert nema eðlilegt að Francesca von Habsburg fái fálkaorðu. Það var reyndar sonarsonur Radbots þessa sem fyrstur varð til að kenna sig beinlínis við kastalann. Hann hét Otto og nefndi sig Otto von Habsburg - en "von" þýðir náttúrlega bara "frá". Þessi Otto fæddist 1111 og hann og afkomendur hans reyndust iðnir greifar svo hin nýja Habsburgarætt efldist brátt að íþrótt og frægð, bæði í Sviss og í Þýskalandi. Og á 13. öld - einmitt um sama bil og Sturlungaöld stóð á Íslandi - þá var greifi af Habsburg Rudolph nokkur sem reyndist klækjarefur hinn mesti og mjög sýnt um að auka lendur sínar með allskonar bellibrögðum og misjafnlega pottþéttum samningum við nágranna sína. Árið 1273 var hann meira að segja kjörinn til konungs yfir Þýskalandi þótt ríki hans næði raunar alls ekki yfir allt Þýskaland. Með í kaupunum fylgdi keisaratitill yfir hinu "heilaga rómverska heimsveldi" sem svo var kallað - en það var upphaflega ríki Karlamagnúsar kóngs í Frakklandi. Í aldanna rás hafði titillinn færst yfir á hinn æðsta fursta í þýsku smáríkjunum en það er annars svo flókin saga að ég nenni ekki að reyna að rekja hana. Nema hvað segja má eins og Voltaire að "hið heilaga rómverska heimsveldi" var aldeilis furðuleg mótsögn - þar sem það var hvorki heilagt né rómverskt né heimsveldi. Látum duga að taka fram að Habsburgurum var smátt og smátt ýtt út úr Sviss, þar sem hin upphaflega Fálkaborg var, en í Þýskalandi sjálfu réðu Habsburgarar miklu í margar aldir. Og ekki aðeins Þýskalandi því smátt og smátt eignuðust Habsburgarar líka krúnur hingað og þangað um Evrópu - aðallega í Mið-Evrópu, svo sem Austurríki, Ungverjalandi og Bæheimi, en líka í Niðurlöndum sem þá voru enn ekki aðskilin í Hollandi og Belgíu. Og svo á Spáni. Öll þessi hásæti eignuðust Habsburgarar með hjónaböndum og mægðum við aðrar konungsættir en lítt eða ekki með styrjöldum. Þeir sendu prinsessurnar sínar í hjónasængur aðals- og kóngsætta um alla Evrópu og fengu aðrar prinsipissur í sínar sængur í staðinn. Oftar en ekki fengu þeir svo örfáum kynslóðum seinna aðrar prinsessur úr sömu ættum - þegar hinar fyrri voru orðnar gamlar kerlingar eða dauðar - og þær nýju voru þá oftar en ekki með meira eða minna Habsburgarblóð í æðum. Þannig gekk þetta - enda er það ein staðlausa alhæfingin sem maður ætti alls ekki að hafa um Habsburgara en gerir samt: að þeir hafi verið meiri vígamenn í samkvæmislífinu en á hinum raunverulega vígvelli þar sem blóðið rann. Til dæmis náðu þeir Habsburgarar konungsstólnum á Spáni þegar Jóhanna, einkadóttir spænsku kóngshjónanna Ísabellu og Ferdínands, þeirra sem sendu Kristófer Kólumbus af stað til Ameríku - þegar Jóhanna þessi þurfti eiginmann og þá var kallaður til Filippus fríði, sonur Maximilians Habsburgarakeisara, en hann var þá fursti í Niðurlöndum. Jóhanna gekk síðan af göflunum og heitir í mannkynssögunni "Jóhanna brjálaða" en eiginmaður hennar Filippus var lýstur kóngur á Spáni í upphafi fimmtándu aldar - og síðan tók við krúnunni sonur þeirra Jóhönnu. Sá hét Karl og var líka keisari í Þýskalandi. Þá stóðu yfir siðaskipti í Evrópu og Karl keisari og Spánarkóngur var einmitt sá merkismaður sem Jón Arason Hólabiskup vonaði í lengstu lög að myndi leggja sér lið við að halda Íslandi kaþólsku. En fór á annan veg, enda hafði Karl öðrum og stærri löndum að sinna. Karl þessi frá Habsburg var annars dæmigerður þjóðagrautur eins og Habsburgarar voru orðnir eftir stöðugar mægðir við aðrar ættir mektarfólks í Evrópu í margar aldir. Þótt hann væri Habsburgari í föðurætt var hann samt enginn Þjóðverji. Móðurmál hans var franska - mál yfirstéttarinnar í Niðurlöndum þar sem hann ólst upp. Hann elskaði París sem hann sagði að væri ekki bara borg, heldur heill alheimur. En alla ævi átti hann samt í stöðugri baráttu og stundum stríðsátökum við kónginn af Frakklandi. Móðir Karls var spænsk en hann var samt heldur enginn Spánverji og þótt Spánarkrúna yrði honum með tímanum hugleiknari en meint keisaradæmi hans í Þýskalandi, þá leið honum í raun og veru aldrei vel á Spáni og fannst hann alla tíð vera þar útlendingur. Hann sagði sjálfur um þetta mál - hverrar þjóðar hann væri: "Ég tala spænsku við Guð, ítölsku við konur, frönsku við karlmenn og þýsku við hestinn minn!" Eftir að Karl dó varð bróðir hans keisari í Þýskalandi en sonur hans tók á hinn bóginn við konungstigninni á Spáni og þannig ríktu tvær aðskildar greinar Habsburgaraættarinnar yfir tveimur stórveldum Evrópu á næstunni. Þýskalandsgreininni var að vísu smátt og smátt rutt burt úr hinu eiginlega Þýskalandi og völd hennar miðuðust brátt æ meira við Austurríki og Ungverjaland. Ríki þeirra þar varð eitt af helstu stórveldum Evrópu í nokkrar aldir - allt fram á tuttugustu öld. Spánargreinin hins vegar, það er saga að segja frá henni. Þar ríktu Habsburgarar í hátt í tvær aldir - reyndar í Portúgal líka um tíma - en að lokum var ættin orðin svo menguð af innræktun að síðasti Habsburgarinn á Spáni var ekki beint glæsilegur pappír. "Innræktun" er að minnsta kosti vinsæl skýring og mála sannast að Habsburgararnir höfðu þá tengst svo innbyrðis hver öðrum og örfáum öðrum háaðalsættum í Evrópu að það hlaut að enda með ósköpum, ef eitthvað er á annað borð hæft í kenningum um að skyldleikaræktun sé óholl. Þessi síðasti Spánarkóngur af Habsburgarætt, hann var til dæmis sonur Filippusar fjórða af Spáni - sem náttúrlega var Habsburgari - en móðir hans var Maríana frá Austurríki sem var annaðhvort systur- eða bróðurdóttir Filippusar. Þessi kóngur hét Karl II eða Carlos eins og hann var kallaður á Spáni - og settist í hásætið þegar faðir hans Filippus andaðist eftir sukksamt líferni árið 1665. Þá var Carlos ekki nema tæpra fjögurra ára og reyndar hreint ekki efnilegur. Það var ljóst frá ungra aldri að hann var bæði óvenjulega ófríður og nokkuð illa vanskapaður - og þjáðist af fjölmörgum alvarlegum kvillum sem ég kann ekki að nefna. Seinna kom svo á daginn að andlegum þroska hans var verulega ábótavant. Óljóst er hvort það megi telja hann beinlínis vangefinn - en hann var að minnsta kosti tröllheimskur og afar svifaseinn í hugsun, svo pent sé til orða tekið. Framan af valdatíma Habsburgara á Spáni hafði Spánn verið helsta stórveldi heims - fyrst og fremst í krafti þess þrotlausa auðs sem rænt var í Ameríku eftir að Ísabella og Ferdinand höfðu vit á að kosta Kólumbus í siglingu sína. En undanfarnir Habsburgarar höfðu sóað mjög auði landsins og öllum kröftum, svo þegar Carlos II kom til ríkis, svona barnungur, þá var Spánn kominn að fótum fram. Og hnignunin hélt áfram undir stjórn Carlosar II enda var hann allsendis óhæfur til að stjórna nokkrum hlut, hvað þá stórveldi, og var heldur ekki gefið að velja sér hæfari menn til að stýra ríkinu í sinn stað. Árið 1679, þegar hann var 18 ára, þá gekk Carlos að eiga Maríu Lovísu sem var bróðurdóttir Loðvíks 14. Frakkakonungs. Í tilbót við allt annað sem hrjáði Carlos kóng, þá reyndist hann getulaus líka og gat með engu móti gert drottningunni barn. Hún fylltist þá þunglyndi sem hún reyndi að vinna á með endalausu áti - og varð á skömmum tíma svínslega feit. Það þoldi heilsa hennar ekki og hún dó eftir tíu ára hjónaband. Carlos grét lát hennar en gekk samt fljótlega að eiga systur keisaraynjunnar í Austurríki. Hún hét María Anna og gat ekkert frekar vakið ástríður hins kyndaufa kóngs. Það var því ljóst að ættin myndi deyja út á Spáni þegar hinu hrjáða lífi Carlosar lyki. Hann gerðist reyndar æ heilsuveilli jafnt á sál sem líkama eftir því sem hann nálgaðist fertugt. Hegðun hans varð stöðugt skrýtnari og einu sinni krafðist hann þess til dæmis að lík allra látinna ættingja sinna yrðu grafin upp því hann langaði að sjá fólkið sitt einu sinni enn. Það var látið eftir honum, því hann var þrátt fyrir allt kóngur, og svo góndi hann á misjafnlega rotna líkama foreldra sinna og síðan fyrri eiginkonu, hinnar akfeitu Mariu Lovísu. Þá vatnaði hann víst músum, þegar hann sá það lík. Síðustu tvö ár ævinnar var hann orðinn alveg lamaður, sköllóttur, heyrnarlaus, nærri tannlaus og eiginlega alveg blindur. Hann var líka farinn að fá flogaköst. Hann dó árið 1700, nokkrum dögum áður en hann varð 39 gamall. Og braust þá út blóðugt stríð á Spáni til að ákvarða arftaka hans. Skyldleikaræktunin sem einkenndi Habsburgarana hafði ekki jafn slæmar afleiðingar í Austurríki, þar sem ættin var miklu lengur á keisarastóli, þótt vissulega væru ekki allir Habsburgararnir þar menn mikilla sæva. En Austurríki undir stjórn Habsburgara átti altént sitt blómaskeið í menningu, sérstaklega tónlist. Á ofanverðri 18. öld og öndverðri þeirri 19. störfuðu þar ýmsir merkustu tónlistarmenn heims - látum duga að nefna Mozart sem lengi bjó í Vínarborg. Sumir hafa viljað þakka Habsburgurum einhvern hluta af tónlistarblómstrinu. En það var reyndar sama sagan um alla Mið-Evrópu og þegar öllu er á botninn hvolft verður að teljast mjög umdeilanlegt hversu vel Habsburgarar reyndust til dæmis Mozart - sjá bara kvikmyndina Amadeus. Og ríkið varð á endanum staðnað skrifræðis- og kúgunarapparat. Franz Kafka og martraðarkenndar sögur hans eru ekki síðri vitnisburður um móralinn í Habsburgarríkinu á sínum efstu dögum heldur en Richard Strauss og glaðlegir Vínarvalsar. Alla vega endaði saga Habsburgara með því að í fyrri miðri fyrri heimsstyrjöldinni dó hinn ævaforni Frans Jósef keisari sem þá hafði setið á valdastóli lengur en elstu menn mundu. Hann átti ekki son á lífi og sá sem útnefndur hafði verið arftaki hans, frændi hans Franz Ferdinand, hann hafði verið myrtur í Sarajevo árið 1914. Morðið á honum markaði sem kunnugt er upphaf heimsstyrjaldarinnar. Því tók við keisaratigninni annar frændi Frans Jósef, Karl hét hann, og var ungur að árum en eftir að austurríska keisaradæmið hrundi við lok fyrri heimsstyrjaldarinnar þá neyddist Karl keisari til að segja af sér, hrökklaðist úr landi og dó reyndar skömmu síðar. Elsti sonur hans hét Otto og varð höfuð Habsburgarættarinnar sem lengi vel gerði enn tilkall til þeirra hásæta sem ættin hafði tapað í Evrópu. Hann var óþreytandi að tala sínu máli næstu áratugina - það var bara enginn að hlusta. Rétt er og skylt að geta þess að Otto von Habsburg bjó um tíma í Hitlers-Þýskalandi en var alla tíð litinn hornauga af Adolf Hitler. Hvort sem ástæðan var sú að hann óttaðist valdatilkall Habsburgara eða þá að Hitler hafði alist upp í Austurríki á efstu dögum Habsburgara - og leið ekki vel á þeim dögum. Altént fór Otto von Habsburg að lokum til Ameríku og bjó þar á heimsstyrjaldarárunum síðari. Otto afsalaði sér eftir stríðið öllu tilkalli til keisaradóms yfir Austurríki gegn því að fá að snúa aftur til landsins. Hann átti fimm dætur áður en hann eignaðist son, Karl nokkurn, sem fæddist 1961. Sá Karl verður að vísu seint keisari en hefur titilinn erkihertogi fyrir þá sem láta sig titlatog varða - og ber þó þetta söguríka nafn - skulum við segja - nafn: Karl von Habsburg. Og það er þessi Karl sem gekk árið 1993 að eiga Francescu þá sem nú hefur verið sæmd íslensku fálkaorðunni. Hún var upphaflega bara lítil barónessa frá Sviss - þaðan sem Habsburgarættin er jú upprunnin - og hét Francesca von Thyssen-Bornemisza áður en hún varð erkihertogaynja von Habsburg. Og tilheyrir því ekki sjálfri ættinni nema gegnum hjónaband. Því ætti ég ekki að sleppa lausum öllum mínum fyrrnefndu fordómum í garð Habsburgara þegar þessi kona berst í tal. En samt - hún er nú Habsburgari samt. Og getur nú skreytt sig íslensku fálkaorðunni í viðbót allt annað glingur sem fylgir nafninu ...
Stórveldi eiga hagsmuni en ekki vini: Deilur tveggja NATO ríkja um Grænland Hilmar Þór Hilmarsson Skoðun
Vinnulag í rannsóknaverkefnum er ekki vísbending um stjórnarhætti þess sem borgar Haraldur Ólafsson Skoðun
Opið bréf til forystu Kennarasambands Íslands (KÍ): Endurskoðum aðferðafræði verkfallsins Valgerður Bára Bárðardóttir Skoðun
Stórveldi eiga hagsmuni en ekki vini: Deilur tveggja NATO ríkja um Grænland Hilmar Þór Hilmarsson Skoðun
Vinnulag í rannsóknaverkefnum er ekki vísbending um stjórnarhætti þess sem borgar Haraldur Ólafsson Skoðun
Opið bréf til forystu Kennarasambands Íslands (KÍ): Endurskoðum aðferðafræði verkfallsins Valgerður Bára Bárðardóttir Skoðun