Innlent

Þrír ungir menn fengu skilorð

Þrír ungir menn á aldrinum 23 til 25 ára fengu skilorðsbundna dóma í Héraðsdómi Reykjaness í gær fyrir margvísleg þjófnar-, umferðarlaga-, og fíkniefnalagabrot. Einn ók bifreið á móti rauðu ljósi á gatnamótum Flatahrauns og Fjarðarhrauns í febrúar 2003 þannig að árekstur hlaust af og í félagi við annan ákærða braust hann nokkrum dögum síðar inn í íbúð við Klapparstíg í Reykjavík og stal skartgripum, áfengi, tóbaki og fleiru, þannig að verðmæti taldist yfir fjórar milljónir króna. Þá voru vinirnir við önnur tækifæri teknir með kannabisefni og amfetamín í neysluskömmtum. Fyrir þetta hlutu þeir tveggja og þriggja mánaða fangelsisdóma skilorðsbundna í þrjú ár. Þriðji maðurinn var kærður fyrir hylmingu en hann tók við stolnum munum og þá stal hann líka bensíni fyrir tæpar sex þúsund krónur á bensínstöð í Reykjavík. Ákvörðun refsingar hans var frestað og fellur hún niður haldi hann skilorð í tvö ár. Fallið var frá kæru um hylmingu af gáleysi á hendur fjórða manninum og mál fimmta mannsins klofið frá og réttað í því sérstaklega. Dóminn kvað Sveinn Sigurkarlsson, héraðsdómari.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×