Innlent

Gill segist ekki atvinnumótmælandi

Paul Gill, mótmælandinn sem úrskurðaður var í gæsluvarðhald eftir að hafa slett skyri á Nordica-hóteli, neitar því að hann sé atvinnumótmælandi. Hann var látinn laus úr gæsluvarðhaldi á laugardaginn og er í farbanni til 1. júlí. Sama dag og Paul Gill var úrskurðaður í gæsluvarðhald var úrskurðurinn kærður til Hæstaréttar. Þegar Gill var úrskurðaður í gæsluvarðhald fyrir héraðsdómi neitaði hann því að vera atvinnumótmælandi. Lögmaður hans er ósáttur við þann úrskurð. Hann segir að engin gögn liggi fyrir um að hann sé atvinnumótmælandi og að mati þeirra sé sú fullyrðingi úr lausu lofti gripin. Því hafi þeim þótt mjög hæpið að gæsluvarðhaldsúrskurðurinn byggðist í og með á því atriði. Í stað gæsluvarðhaldsins var Gill úrskurðaður í farbann til 1. júlí og þarf hann að tilkynna sig hjá lögreglustjórum tvisvar á dag, á milli klukkan 10 og 11 á morgnana og aftir á milli klukkan 6 og 7 á kvöldin. Lögmaður Gill segir að það verði skoðað hvort reynt verði að fá farbanninu hnekkt. Fréttastofa Stöðvar 2 reyndi að ná tali af Paul Gill í dag en hann sagðist ekki hafa neinn áhuga á að tala við fjölmiðlamenn og skellti á. Að sögn lögmannsins var hann ekki í einangrun í varðhaldinu. Hann sé grænmetistæta og hafi ekki verið sáttur við matinn á Litla-Hrauni og hafi því orðið fegnastur þegar hann hafi fengið almennilega að borða þegar hann hafi komið út. Það hafi verið það eina sem hann hafi viljað segja um gæsluvarðhaldsvistina.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×