Erlent

Óvænt kosningaúrslit í Íran

Harðlínumenn ráða nú öllu í Íran eftir að hinn íhaldssami frambjóðandi, Ahmadinejad, vann óvæntan en afgerandi sigur í forsetakosningum. Þegar hann var skipaður borgarstjóri í Teheran 2003 var hann nánast óþekktur og í upphafi kosningabaráttunnar nú hafði það lítið breyst. Því var búist við sigri mótherjans, Rafsanjanis, en að munurinn yrði lítill. Niðurstaðan varð allt önnur: Ahmadinejad hlaut sextíu og tvö prósent atkvæða en Rafsanjani aðeins þrjátíu og sex prósent. Íhaldssamir harðlínumenn höfðu því betur en Ahmadinejad mun ekki síst hafa notið stuðnings undirstétta þar sem fátækt og atvinnuleysi eru algeng vandamál. Ahmadinejad hefur meðal annars heitið því að taka á spillingu og tryggja að olíuauður landsins komi öllum íbúum Írans til góða en ekki einungis yfirstéttum. Stuðningsmenn Rafsanjanis, sem hét umbótum, óttuðust íslamska harðlínustefnu og að frjálslyndar umbætur yrðu afturkallaðar. Í ljósi verka Ahmadinejads á borgastjórastóli kemur það ekki á óvart: þá sneri hann við stefnu forvera sinna, lokaði skyndibitastöðum og krafðist þess að karlar í starfi hjá borginni létu sér vaxa skegg og klæddust ermasíðum kuflum. Síðdegis sagðist hann vilja skapa þróaða og öfluga fyrirmyndarþjóð á grundvelli íslams. Hann hefur varið kjarnorkuáætlun Írana með krafti og segir bætt samskipti við Bandaríkin æskileg en er talinn ólíklegur til að stíga skref í þá átt.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×