António Guterres, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, hefur fordæmt árásirnar og kallað eftir því að Ísrael og Hezbollah haldi aftur af sér þegar kemur að hefndaraðgerðum.
Ísrael hefur ekki formlega lýst ábyrgð árásanna á hendur sér en varnarmálaráðherrann Yoav Gallant óskaði leyniþjónustunni Mossad til hamingju í gær fyrir stórkostlegann árangur.
Gallant greindi einnig frá því í gær að aðgerðir Ísraelsmanna myndu nú í auknum mæli beinast að norðurhluta landsins, þar sem Ísrael og Hezbollah hafa staðið í skærum yfir landamærin.
Það vekur athygli að Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, sem var þá staddur í Egyptalandi virtist ýja að því í ummælum sínum í gær að árásirnar væru þáttur í viðleitni Ísraelsmanna til að koma í veg fyrir að friðarsamkomulag næðist um Gasa.
Ráðherrann sagði það hafa gerst ítrekað að menn teldu sig vera nálægt því að ná árangri en þá ætti einhver atburður sér stað sem setti allt á bið.
Volker Türk, yfirmaður mannréttindamála hjá Sameinuðu þjóðunum, sagði í yfirlýsingu í gær að árásirnar í Líbanon, sem hefðu beinst gegn fjölda fólks án tillits til staðsetningar og aðstæðna hvers og eins, fæli í sér brot á mannréttindalögum.
National News Agency hefur greint frá því að sólarhleðslustöðvar hafi einnig sprungið á nokkrum heimilum í gær.