Viðskipti innlent

Flutti viðskiptin úr SPH

Bæjarsjóður Hafnarfjarðar hefur flutt bankaviðskipti sín úr Sparisjóði Hafnarfjarðar yfir í Kaupþing banka og sparar með því u.þ.b. sextíu milljónir króna í þjónustugjöld á ári, að sögn Lúðvíks Geirssonar bæjarstjóra í viðtali við fréttastofuna í morgun. Lúðvík segir þetta þó ekki standa í neinu samhengi við atburðina í Sparisjóðnum upp á síðkastið því bærinn hafi boðið bankaþjónustuna út, ásamt ýmsum öðrum þjónustuliðum, upp úr áramótum og hagstæðasta boðið hafi komið frá KB banka. Þangað til hafi bærinn verið í viðskiptum við Sparisjóðinn, allt frá stofnun sjóðsins. Tilboð KB banka hafi einfaldlega verið átta og hálfu prósenti lægra en tilboð Sparisjóðsins. Þá hefur fréttastofan heimildir fyrir því að forráðamenn íþróttafélaganna í Hafnarfirði hafi nokkrar áhyggjur af framvindu mála í Sparisjóðnum því í stofnsamþykkt hans er ákvæði um að ákveðið hlutfall af eigin fé sjóðsins skuli renna til líknar- og menningarmála. Þeir segja að myndarleg framlög sjóðsins um margra ára skeið eigi snaran þátt í velgengni íþróttafólks frá Hafnarfirði, bæði á sviði hópíþrótta og frjálsra íþrótta.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×