Innlent

Vilja milljónirnar endurgreiddar

Mál Kers hf. á hendur íslenska ríkinu og samkeppnisyfirvöldum verður þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. Fyrirtækið krefst þess að úrskurður áfrýjunarnefndar samkeppnismála frá því í janúar verði felldur úr gildi, en til vara að sektargreiðslur fyrirtækisins verði stórlega lækkaðar. Ker á Olíufélagið ehf., Esso, en áfrýjunarnefndin sektaði félagið um 495 milljónir króna. "Umbjóðandi minn telur nauðsynlegt að dómstólar meti þau lögfræðilegu sjónarmið sem liggja að baki niðurstöðu samkeppnisyfirvalda og mun leggja fram ný gögn frá óháðu endurskoðunarfyrirtæki sem sýnir svart á hvítu að forsendur og aðferðafræði útreiknings samkeppnisyfirvalda eigi við lítil, ef þá nokkur, rök að styðjast," segir Kristinn Hallgrímsson, lögmaður Kers. Hann segir Ker líta svo á að burtséð frá fjárhæðum sekta sé nauðsynlegt að vinda ofan af röngum útreikningum um meintan ólögmætan ávinning. "Því við því er að búast að viðskiptamenn félagsins muni freista þess að fara í skaðabótamál á hendur því og þá skiptir máli að þessir útreikningar séu réttir."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×