Innlent

Hnífjafnt í borginni

Sé horft til þeirra sem afstöðu tóku í nýrri viðhorfskönnun IMG Gallup fengi Sjálfstæðisflokkurinn 50,2 prósent, Reykjavíkurlistinn 49,0 prósent og Frjálslyndi flokkurinn 0,8 prósent ef kosið yrði til borgarstjórnar í dag. Skekkjumörk eru þó veruleg, 6,2 prósent hjá stóru framboðunum og 1,1 prósent hjá Frjálslynda flokknum. Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, oddviti borgarstjórnarflokks sjálfstæðismanna, segir augljóst að Sjálfstæðisflokkurinn sé í mikilli sókn. Hann segir þó að öllum skoðanakönnunum beri að taka með fyrirvara. "Við erum mjög þakklát fyrir það traust sem Reykvíkingar sýna okkur og þessi skoðanakönnun endurspeglar," segir hann og telur niðurstöðuna vera flokknum mikil hvatning til áframhaldandi góðra verka fyrir borgarbúa. "Í samvinnu við þá ætlum við okkur að búa til betri borg." Steinunn Valdís Óskarsdótti borgarstjóri segir skoðanakannanir Gallup síðustu misseri hafa sýnt að meirihluti Reykjavíkurlistans standi traustum fótum. "Þó svo að ein smákönnun nú sýni að Sjálfstæðisflokkurinn sé þremur atkvæðum yfir Reykjavíkurlistanum, þá er það nokkuð sem ég sef alveg rólega yfir. En ef menn vilja taka þetta alvarlega má líka skoða niðurstöðuna í því ljósi að í gangi eru viðræður um framtíð Reykjavíkurlistans. Þar eru auðvitað miklar hræringar og ekki komið á hreint hvað verður fyrir næstu kosningar," segir hún. Símakönnun Gallup var unnin fyrir borgarstjórnarflokk sjálfstæðismanna dagana 15. júní til 5. júlí. Endanlegt úrtak var 670 Reykvíkingar, 18 til 75 ára, valdir af handahófi úr þjóðskrá. Svarhlutfall var 56,1 prósent, en spurt var: "Ef kosið yrði í dag til borgarstjórnar hvaða flokk eða lista myndir þú kjósa/líklegast kjósa?"



Fleiri fréttir

Sjá meira


×