Innlent

Árni heitir nýjum störfum nyrðra

Árni M. Mathiesen sjávarútvegsráðherra segir að stefnt sé að frekari fjölgun starfa á vegum ráðuneytisins á Akureyri en þeim hafi fjölgað fyrir norðan á undanförnum misserum. "Á þessum tímapunkti er ekki hægt að segja til um hvaða verkefni verða unnin á Akureyri né um hversu mörg ný störf er að ræða. Þó er ljóst að uppbygging á starfsemi Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins mun halda áfram fyrir norðan en einnig verða fleiri kostir skoðaðir," segir Árni Forsvarsmenn Kaupfélags Eyfirðinga áttu fund með Árna og Vilhjálmi Egilssyni ráðuneytisstjóra síðastliðinn fimmtudag þar sem farið var yfir hugmyndir stjórnar KEA um flutning verkefna á vegum ráðuneytisins til Akureyrar. Ráðherra segir fundinn hafa verið gagnlegan og góðar líkur séu á að af samstarfi ráðuneytisins og KEA verði. Niðurstöðu sé hins vegar ekki að vænta fyrr en í haust. Stjórn Kaupfélags Eyfirðinga lýsti í vor yfir áhuga á að koma að flutningi opinberra stofnana og verkefna til Akureyrar og er félagið tilbúið að leggja fram hundruð milljóna til að svo megi verða. Ein af þeim stofnunum sem KEA renndi hýru auga til var Fiskistofa og bauðst félagið til að greiða kostnaðinn við flutning meginhluta stofnunarinnar norður. Benedikt Sigurðarson, stjórnarformaður KEA, segir ljóst eftir fundinn með ráðherra og ráðuneytisstjóra að ekki verði af flutningi stjórnsýsluhluta Fiskistofu til Akureyrar. "Það er hins vegar hugsanlegt að fleiri verkefni á vegum Fiskistofu verði í framtíðinni unnin á Akureyri og við fögnum jákvæðri afstöðu ráðherra til flutnings á verkefnum norður," segir Benedikt. Árni segir vilja KEA til að koma að fjármögnun á flutningi verkefna á vegum ráðuneytisins norður mjög jákvæðan. "Það er af hinu góða þegar heimaaðilar hafa sett sér það markmið að skapa gott umhverfi fyrir ný störf. Slíkt liðkar til fyrir flutningi verkefna og að loknum sumarleyfum mun ég hitta forsvarsmenn KEA á ný," segir Árni.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×