Viðskipti innlent

Methagnaður hjá Burðarási

Hagnaður Burðaráss fyrstu sex mánuði ársins nam 24,5 milljörðum króna og þar af var hagnaður félagsins á öðrum ársfjórðungi tæpir 20 milljarðar króna. Aldrei áður hefur fyrirtæki skilað svo miklum hagnaði á einum ársfjórðungi. Helmingur hagnaðarins er tilkominn vegna sölu Eimskips en hagnaður af annari fjárfestingastarfsemi nemur rúmum 12 milljörðum króna. Innlendur hlutabréfamarkaður hefur hækkað á árinu en einnig hafa erlendar fjárfestingar skilað félaginu góðum hagnaði. Þrátt fyrir að hagnaður Burðaráss hafi verið yfir væntingum lækkaði gengi félagins um rúmt eitt prósent í gær. Talið er að lækkunin stafi af því að margir séu að innleysa hagnað sinn af bréfum í félaginu. Heildareignir Burðaráss eru 117 milljarðar króna. Verðmætustu eignir félagsins eru í fjármálafyrirtækjum og er verðmætasta eign félagsins í Íslandsbanka fyrir 15 milljarða. Þar á eftir kemur hlutur í Skandia fyrir um 13 milljarða og hlutur í Carnegie upp á 10,5 milljarða. Burðarás á skráðar eignir fyrir 85 milljarða króna og óskráðar eignir fyrir rúma 19 milljarða króna. Stærsta óskráða eignin er hlutur í Avion Group sem félagið fékk að hluta til í skiptum fyrir Eimskip. Á tímabilinu fjárfesti Burðarás í Novator, sem er fjárfestingarfélag í eigu Björgólfs Thors Björgólfssonar, fyrir um fjóra milljarða króna. Novator leggur höfuðáherslu á fjárfestingar í fjarskiptafyrirtækjum. Friðrik Jóhannsson, forstjóri Burðaráss, sagði Novator góðan kost fyrir Burðarás og að til greina kæmi að fjárfesta með félaginu í einstökum verkefnum. Eigið fé Burðaráss er um 65 milljarðar króna og eiginfjárhlutfallið 56 prósent. Svo hátt eiginfjárhlutfall leiðir til þess að félagið hefur mikið bolmagn til að ráðast í fjárfestingar á næstunni. Eins og áður hefur komið fram hyggst Burðarás taka þátt í útboði á Símanum nú í næstu viku.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×