Erlent

Þurr og sjarmalaus vonarstjarna

Þurr og sjarmalaus austurþýsk kona er vonarstjarna þýskra íhaldsmanna. Angela Merkel stefnir hraðbyri á kanslarabústaðinn í Berlín takist Schröder núverandi kanslara ekki að bregða fyrir hana fæti í kappræðum. Þýskir íhaldsmenn binda miklar vonir við Merkel. Hún er formaður flokks kristilegra demókrata og kanslaraframbjóðandi - og fyrir vikið eru dágóðar líkur á að hún verði næsti kanslari Þýskalands, sé eitthvað að marka kannanir. Í gær kynnti hún stefnumál flokksins í Bæjaralandi. Lykilatriðið er að koma stjórn jafnaðarmanna og græningja, með Schröder kanslara í fararbroddi, frá. Annars segja kristilegir demókratar endalokin blasa við: gjaldþrot og uppsagnir, botnlaust skuldafen og gjaldþrot ríkissjóðs. Merkel vísar því á bug að hún og flokkssystkinin máli skrattann á vegginn og geri vont ástand verra með því að ýkja það. Ástandið sé einfaldlega slæmt. Kristilegir demókratar séu hins vegar búnir undir framtíðina með frumkvæði og nýsköpun. Það er þörf á hvoru veggja eftir langt stöðnunartímabil og Þjóðverjar vona að austurþýski raunvísindamaðurinn Merkel ljúki því. Saga hennar er merkileg og á margan hátt táknræn fyrir Þýskaland. Hún ólst upp í Austur-Þýskalandi en líkaði kerfið lítt. Hún lærði raunvísindi, var virk í andspyrnunni undir lok níunda áratugarins og var meðal þeirra sem voru í forystu þegar Austur-Þjóðverjar tóku völdin í sínar hendur. Helmut Kohl kom auga á hana og kippti inn í forystusveit CDU. Þar var hún lengi vel kölluð „stúlkan hans Kohls“, eða þangað til hún snerist gegn honum þegar hneykslismál léku flokkinn grátt. Hún var ein fárra úr forystunni sem ekki var viðriðin það mál og leiddi flokkinn út úr táradalnum sem fylgdi. Nú er spurningin hvort Merkel sé undir starf kanslarans búin. Hluti ástæðu þess að hún er vinsæl er sú að hún er ekki sami sleipi stjórnmálamaðurinn og Þjóðverjar eru vanir. Hún er fremur kauðsk og hefur ekki sérstaka útgeislun. Hún talar hins vegar hreint út og þykir hafa mikla pólitíska hæfileika. Þeir hæfileikar eru hins vegar ekki sjáanlegir í sjónvarpi og það veit Gerhard Schröder. Þess vegna vill hann sjónvarpskappræður og þær frekar fleiri en færri. Merkel og CDU þvertaka fyrir það og hafa samþykkt eitt kappræðukvöld. Þýskir stjórnmálaskýrendur bíða spenntir eftir því hvort hinum sleipa stjórnmálamanni Schröder takist að snúa þróuninni sér í hag þegar að kappræðunum kemur.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×