Innlent

Hætta á auknum skattsvikum

"Mér finnst það mjög einkennilegt að á sama tíma og verið er að ræða um offituvandamál hér á landi, þá standi jafnvel til að lækka neðra þrep virðisaukaskatts sem einkum leggst á matvæli. Íslenskar landbúnaðarvörur eru í þessum flokki og þær eru mjög fituríkar," segir Pétur H. Blöndal, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, vegna þeirrar umræðu sem nú er um að mögulega standi til að lækka neðra þrep virðisaukaskatts um allt að helming. "Ef neðra þrepið yrði lækkað um helming og niður í sjö prósent eins og rætt hefur verið um, eykst líka hvatningin til að svíkja undan skatti því munurinn á sjö prósentunum og svo tuttugu og fjórum og hálfu prósenti er orðinn mjög mikill. En rökin með slíku eru þau að slíkar lækkanir kæmu þeim sem lægstar hafa tekjurnar til góða vegna þess að þeir eyða meira hlutfallslega af tekjum sínum í matvæli," segir Pétur. Sigurður Jónsson, framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu, segir að samtökin hafi lagt til að allur matur yrði færður í eitt þrep því virðisaukaskattur á matvæli væri hér á landi með því hæsta sem gerðist í Evrópu að Danmörku undanskildu. "Við værum hins vegar ekki mjög hrifnir af því að lækka þennan skatt um helming eins og rætt hefur verið um því þá er komið allt of breitt bil á milli skattþrepa. Eðlileg lækkun væri niður í um tólf prósent og meira máli skiptir líka að vörugjöldin séu tekin af. Of mikið bil eykur hættu á undanskotum auk þess sem vörugjöldin eru skattur," segir Sigurður. Hann segir vörugjöldin mismikil og þau séu mjög ósanngjörn. "Það leggst til dæmis 28 krónu vörugjald á kaffi og 35 krónur á te. Vörugjöldin eru eitthvað sem mikilvægt er að skoða núna þegar þessi mál eru á dagskrá," segir Sigurður.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×