Viðskipti innlent

Kannar kröfur banka um kennitölu

Bankar krefja alla um kennitölu þegar keyptur er gjaldeyrir. Samkvæmt lögum er bönkum og sparisjóðum skylt að biðja um hana, fari upphæðin yfir 1,2 milljónir, en annars ekki. Það gera þeir samt og er málið í athugun hjá Persónuvernd. Ekki þarf að gefa upp kennitölu þegar keyptur er banani, blóm eða föt. En þegar keyptur er gjaldeyrir í fríið þarf þess. Þetta eru reglur bankanna en samvæmt lögum er bönkum og sparisjóðum hins vegar aðeins skylt að biðja um kennitölu fari upphæðin yfir 1,2 milljónir króna. Engu skiptir hver upphæðin er. Þegar fréttastofa Stöðvar 2 fólst eftir upplýsingum um málið hjá Íslandsbanka fengust þau svör að þetta væri gert af öryggisástæðum, rétt eins og þegar um hærri upphæðir væri að ræða. Að koma í veg fyrir peningaþvætti. Hjá Persónuvernd, fengust þær upplýsingar að málið væri í skoðun. Samtökum banka og verðbréfafyrirtækja annars vegar og Sambandi íslenskra sparisjóða hins vegar hefur verið gefinn frestur til 9. september til að tjá sig um öflun kennitalna í gjaldeyrisviðskiptum og hvers vegna þeir krefðust þessara upplýsinga ef um væri að ræða fyrrgreinda upphæð. Þá segir Persónuvernd að eðlilegt sé að krafan um kennitölu sé fyrir hendi þegar upphæðir fari yfir 1,2 milljónir. Ástæðan sé að koma í veg fyrir peningaþvætti, hvað sé að streyma inn og út úr landinu. Annað gilti um lægri upphæðir. Niðurstöðu er að vænta í september en Persónuvend sagði þó ekki hægt að segja meira um málið fyrr en niðurstöður fengjust.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×