Erlent

Færeyingar vilja aðild að EFTA

Færeyingar vilja sækja um að aðild að Norðurlandaráði og EFTA en Færeyingar lúta enn yfirráðum Dana og hafa aðeins sjálfsstjórn og utanríkismál landsins eru í höndum Dana. Lögmaður Færeyinga, Jóannes Eidesgaard, sagði í hinni svokölluðu lögmannsræðu á ÓIafsvöku í Færeyjum undir lok síðasta mánaðar að Færeyingar vildu taka þátt í alþjóðlegu samstarfi og aðild að EFTA myndi hugnast þjóð sinni vel. Þá hefur aðild Færeyinga borið á góma í Norðurlandaráði síðustu tvö árin en að undanförnu þykja Færeyingar hafa lagt sífellt meiri áherslu á aðildarumsókn sína að ráðinu. Gunnar Snorri Gunnarsson, ráðuneytisstjóri í utanríkisráðuneytinu, segir að Íslendingar hafi veitt Færeyingum ráðgjöf og annað sem þeir hafi sóst eftir og hvatt þá til að styrkja tengslanet sín við bæði EFTA og Norðurlandaráð en erfitt sé að styðja aðildarumsóknir þeirra að svo stöddu. "Þeir verða að hafa sína þjóðréttarlega stöðu á hreinu og gera þá stöðu upp við Dani. Við viljum gjarnan styðja þá en getum það ekki meðan svo er en hversu víðtækt umboð þeir hafa er atriði sem er þjóðréttarlegt og eitthvað sem við viljum að þeir eigi við Dani," segir Gunnar. "Ég hef stutt það með kjafti og klóm undanfarin ár að Færeyingar fái aðild að Norðurlandaráði," segir Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri-grænna og fulltrúi í Íslandsdeild Norðurlandaráðs. Hann segir að tvær leiðir séu mögulegar fyrir Færeyinga til þess að öðlast aðild að ráðinu og önnur sé að dönsku stjórnarskránni verði breytt. "Sú leið er auðvitað svolítið fjarsótt en sú leið sem er líklegri er að Helsinki-sáttmála Norðurlandaráðs verði breytt en til þess þarf samþykki allra þjóða," segir Steingrímur.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×