Innlent

Bíða álits forsætisnefndar

Þingflokkur Samfylkingarinnar hyggst bíða með að birta upplýsingar um fjárhags- og hagsmunatengsl þingmanna sinna þar til forsætisnefnd hefur fjallað um málið og ákveðið hvort setja skuli almennar reglur fyrir þingmenn um slíkt. Framsóknarmenn gagnrýna þetta og kalla eftir efndum. Í vor sendi þingflokkur Samfylkingarinnar bréf til forsætisnefndar þar sem farið var fram á að settar yrðu almennar reglur um upplýsingagjöf þingmanna um eignir og hagsmunatengsl. Með fylgdu tillögur að reglum. Í forsætisnefnd sitja forseti Alþingis sem nú er Halldór Blöndal og fimm varaforsetar. Jónína Bjartmarz, annar varaforseti, segir Framsóknarflokkinn hafa sent svipað erindi til nefndarinnar í vor, en þingflokkurinn hafi ákveðið að bíða ekki og sjá hvort forsætisnefnd tæki málið upp, heldur birta strax yfirlit um fjárhags- og hagsmunatengsl þingmanna sinna og aðlaga það svo samræmdum reglum, komi forsætisnefnd sér saman um þær. Þingmenn Vinstri-grænna fylgdu í kjölfarið skömmu síðar. En hvers vegna ætlar Samfylkingin að bíða eftir forsætisnefnd - geta þingmenn ekki gert grein fyrir fjárhags- og hagsmunatengslum sínum óháð henni? Kristján L. Möller, þingmaður Samfylkingar, segir að þau geti gert það og muni sjálfsagt gera það ef forsætisnefnd gerir þetta ekki. Hann sagði óþarfa að bíða og þau myndu sjálfsagt gera að en þingflokkurinn óskaði eftir því að nokkur álitamál yrðu skoðuð af forsætisnefnd. Hann sagði það gert í þágu allra þingflokka og þingmanna skoðaði þá hluti sem m.a. lúta að persónuvernd. Þar á Kristján við atriði eins og hvort birta megi upplýsingar um tekjur og eignir maka. Hann sagði þá ekkert veigra sér við slíkri birtingu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×