Innlent

Ísland jafnhreint og S-Argentína

Ísland er jafnhreint og Suður-Argentína þegar kemur að gin- og klaufaveiki, segir dýralæknir í stjórn Dýralæknafélags Íslands. Þrátt fyrir það telur landbúnaðarráðherra áhættuna of mikla við að flytja inn argentínskt nautakjöt til landsins. Gísli Sverrir Halldórsson dýralæknir segir Ísland vera jafnhreint og Nýja-Sjáland og Suður-Argentína þegar kemur að gin- og klaufaveiki. Veikin hefur aldrei fundist á þessum svæðum. Hann segir vel fylgst með mærum Suður- og Norður-Argentínu þegar kemur að húsdýraflutningum og megi líkja nautgriparækt Suður-Argentínumanna við fiskimið okkar Íslendinga, þetta sé ein stærsta auðlind þjóðarinnar. Guðni Ágústsson, landbúnaðarráðherra, hefur synjað beiðni um innflutning á nautakjöti frá Suður-Argentínu vegna gin- og klaufaveiki sem kom upp í norðurhluta landsins fyrir tveimur árum. Viðurkennt er á alþjóðavettvangi að svæðið sunnan 42. breiddargráðu, eða suðurhluti landsins, er laust við gin- og klaufaveiki án bólusetningar en Guðni segist ekki vilja skipta landinu í tvennt. Það hafi aldrei verið gert hér á landi og það sé nýtt að fara skilgreina annan hluta lands heilbrigðan. Þá verði að fara betur yfir að það sé alveg öruggt. Aðspurður hvort haldið verði áfram að flytja inn kjöt frá Frakklandi og Hollandi þar sem gin- og klaufaveiki hafi greinst segir Guðni að það verði að gæta sín á þeim löndum eins og öðrum. Það hafi bæði yfirdýralæknir og landbúndaðarráðuneytið gert enda sé það skylda þeirra.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×