Innlent

13% vinna á höfuðborgarsvæðinu

Í Gaulverjabæjarhreppi eru áætlaðar skatttekjur á þessu ári lægri á hvern íbúa en framlag á hvern íbúa hreppsins úr jöfnunarsjóði sveitarfélaga. Einar Guðni Njálsson, bæjarstjóri Árborgar, segir að framlög jöfnunarsjóðsins á hvern íbúa á Selfossi og annars staðar í Árborg sé varla nema sjöundi hluti af skatttekjum bæjarfélagsins á hvern íbúa. "Þetta hvetur ekki minni sveitarfélögin til sameiningar," segir Einar Guðni. Þann 8. október næstkomandi verður kosið um sameiningu sex sveitarfélaga í Flóa og Ölfusi. Þetta eru Árborg, Hveragerði, Ölfus, Hraungerðishreppur, Villingaholtshreppur og Gaulverjabæjarhreppur. Samþykki meirihluti kjósenda sameiningu í öllum sveitarfélögunum sex verður til nærri 11 þúsund manna sveitarfélag á Suðurlandi. Í nýrri skýrslu um kosti og galla sameiningar sveitarfélaganna sex segir meðal annars að unnt sé að auka félags- og fjölskylduþjónustu við íbúana með sameiningu þótt svo að þjónustan kunni að verða ópersónulegri en var í litlu sveitarfélögunum þremur. Rætt er í skýrslunni um möguleika til sóknar í leikskólamálum en eftirspurn eftir leikskólaplássum hefur verið langt um fram framboð á undanförnum árum sökum fólksfjölgunar. Sameinað sveitarfélag á Suðurlandi er í skýrslunni talið hafa ákveðna sérstöðu þar sem svæðið sé einskonar útjaðar höfuðborgarsvæðisins. Vitnað er til nýrrar könnunar en þar kemur fram að 13 prósent íbúa í Hveragerði, Árborg og Ölfusi sækja vinnu til höfuðborgarsvæðisins. Nálægðin við höfuðborgina er talin draga úr möguleikum á mikilli fjölgun sérfræðistarfa á svæðinu. Í skýrslunni er vakin athygli á að vegtenging við Keflavíkurflugvöll um Suðurstrandarveg sé þýðingarmikil fyrir byggðarlagið. Í skýrslunni er talið augljóst að hagræða megi í yfirstjórn með sameiningu. Sveitarstjórnarfulltrúum fækki úr 38 í 11 og einn bæjarstjóri leysi af þrjá bæjar- og sveitarstjóra og þrjá oddvita. Einar Guðni Njálsson, bæjarstjóri Árborgar, segir ógerlegt að spá um úrslitin 8. október. Vilji til sameiningar sé mismikill. "Hann er töluverður í Hveragerði en mun minni til dæmis í Þorlákshöfn.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×