Olíuverð í upphæðum 1. september 2005 00:01 Mörgum bregður skiljanlega í brún við að þurfa nú að borga 113 til 120 krónur fyrir hvern bensínlítra, sem kostaði 70 krónur ekki alls fyrir löngu. Sunnudagsbíltúr frá Reykjavík austur á Þingvöll getur hæglega kostað 2.000 krónur bara fyrir bensínið. Hvernig bregst fólk við svo mikilli verðhækkun? Hvað er til ráða? Sagan bregður birtu á málið. Olíuverðshækkunin mikla fyrir þrjátíu árum kallaði á hörð viðbrögð í Bandaríkjunum og öðrum olíuinnflutningsríkjum. Það var ekki við öðru að búast, enda margfaldaðist heimsmarkaðsverð á bensíni og olíu til upphitunar 1973-1974. Langar biðraðir mynduðust við bensínstöðvar þar vestra, leyfilegur hámarkshraði á vegum var lækkaður úr 70 mílum á klukkustund í 55, bílaframleiðendum í Detroit var einnig uppálagt með lögum að auka sparneytni ökutækja, japanskir smábílar ruddu sér til rúms í Bandaríkjunum og um allan heim og Carter Bandaríkjaforseti klæddist lopapeysu og bað landsfólkið að venja sig við minni hita í heimahúsum og á vinnustöðum í orkusparnaðarskyni. Biðraðirnar við bensínstöðvarnar hurfu eftir skamma hríð, og lífið færðist aftur í fyrra horf. Sagan endurtók sig 1979-1981, nema nú voru menn reynslunni ríkari og áttu enn auðveldara með að laga sig að hærra orkuverði en áður. Viðbrögðin voru ekki jafnhörð í Evrópu, þess gerðist ekki þörf, því að þar var bensínverð mun hærra fyrir vegna gjaldheimtu frá gamalli tíð, svo að hlutfallshækkun olíuverðs var minni þar en í Ameríku og olli þeim mun minna raski. Eigi að síður brugðust Evrópumenn einnig vel við olíuverðshækkuninni í bæði skiptin, t.d. með því að auka sparneytni evrópskra bíla og bæta almannasamgöngur. Evrópskir bílar ruddu sér nú braut inn á Bandaríkjamarkað við hlið japanskra bíla í áður óþekktum mæli. Bandarískir bílar hurfu að heita má af götum evrópskra borga á árunum eftir 1980: þeir þóttu einfaldlega of dýrir í rekstri. Toyota hefur æ síðan selst allra bíla mest á Íslandi. Olía lækkaði þó smám saman aftur í verði eftir 1981 miðað við ýmislegt annað, svo að bensín vó þá ekki lengur jafnþungt í útgjöldum heimilanna vestan hafs, og þá sáu bandarískir bílaframleiðendur sér leik á borði: þeir byrjuðu að framleiða jeppa. Hvers vegna jeppa? Það stafaði m.a. af því, að vinveittir stjórnmálamenn skilgreindu jeppana í lögum sem landbúnaðartæki, og þeir voru því undanþegnir þeim kröfum, sem gerðar eru til fólksbíla um sparneytni og útblástur úrgangsefna. Þannig tókst þeim í Detroit að stilla verðinu á þessum nýju tryllitækjum svo í hóf, að þau hafa selst eins og heitar lummur bæði heima og erlendis og gerbreytt ásjónu t.a.m. Reykjavíkur og annarra byggða (og óbyggða, svo sem hjólför á hálendi Íslands vitna um). Meira en helmingur nýrra bíla í Bandaríkjunum er nú jeppar og svipuð tæki. Jepparnir brenna um 40 prósent af öllu eldsneyti í Bandaríkjunum og blása út röskum fimmtungi þess koltvísýrings sem Bandaríkjamenn sleppa út í andrúmsloftið og mestu veldur um hlýnun loftslags um heiminn. En nú er mörgum jeppamanninum brugðið. Bílaframleiðendum í Detroit er ekki heldur skemmt, því að hækkun bensínverðs á heimsmarkaði hefur dregið úr jeppasölu um víða veröld. Verðhækkunin stafar m.a. af aukinni eldsneytiseftirspurn í Kína, þar sem meira en milljarður manna er sem óðast að skipta út ryðguðum reiðhjólum fyrir nýja bíla, einkum japanska, þýska, kóreska og kínverska bíla. Mörg erlend fyrirtæki framleiða bíla í Kína. Þeir í Detroit sitja eftir með síminnkandi markaðshlutdeild – og sárt ennið. Hvernig gat þetta gerst? Ein skýringin er sú, að bílaverksmiðjurnar í Detroit – General Motors, Ford og Chrysler – vanmátu hættuna á hækkun bensínverðs og nýttu sér nýja tækni til að auka vélarafl nýrra bíla frekar en að auka sparneytni þeirra. Og nú hefur Toyota sett á markað nýjan bíl, sem gengur jöfnum höndum fyrir bensíni og rafmagni. Bíllinn sá virðist líklegur til að fara sigurför um heiminn. Allir helstu bílaframleiðendur í Japan (Honda, Mazda, Nissan og Toyota), DaimlerChrysler og General Motors vinna nú að þróun vetnisbíla. Miklar vonir eru bundnar við slíka bíla. Bandarísku bílafyrirtækin virðast þó einna helst reiða sig á lækkun olíuverðs á heimsmarkaði, tilslakanir löggjafans frá fyrri viðmiðum um mengunarvarnir og olíuvinnslu í friðlöndum í Alaska. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Fastir pennar Þorvaldur Gylfason Mest lesið Hlýnun jarðar mun ekki valda heimsendi Sæunn Kjartansdóttir Skoðun Evrópusambandið eða nasismi Snorri Másson Skoðun Hugvíkkandi efni: Forvitni umfram dómhörku Bergsveinn Ólafsson Skoðun Listin að styðja en ekki stýra Árni Sigurðsson Skoðun Friður eða svikalogn? Hilmari Þór Hilmarssyni, prófessor, svarað Andri Þorvarðarson Skoðun Skjáfíkn - vísindi eða trú? Ásdís Bergþórsdóttir Skoðun SVEIT – Kastið inn handklæðinu Aðalsteinn Árni Baldursson Skoðun Vegna FB færslu Kristins Hrafnssonar: Misskilningur um endurgreiðslukerfi kvikmynda Ólafur William Hand Skoðun Hvernig tölum við um mat í kringum börnin okkar? Berglind Lilja Guðlaugsdóttir Skoðun Tilraun til 40 ára býður skipbrot - allir þegja Björn Ólafsson Skoðun
Mörgum bregður skiljanlega í brún við að þurfa nú að borga 113 til 120 krónur fyrir hvern bensínlítra, sem kostaði 70 krónur ekki alls fyrir löngu. Sunnudagsbíltúr frá Reykjavík austur á Þingvöll getur hæglega kostað 2.000 krónur bara fyrir bensínið. Hvernig bregst fólk við svo mikilli verðhækkun? Hvað er til ráða? Sagan bregður birtu á málið. Olíuverðshækkunin mikla fyrir þrjátíu árum kallaði á hörð viðbrögð í Bandaríkjunum og öðrum olíuinnflutningsríkjum. Það var ekki við öðru að búast, enda margfaldaðist heimsmarkaðsverð á bensíni og olíu til upphitunar 1973-1974. Langar biðraðir mynduðust við bensínstöðvar þar vestra, leyfilegur hámarkshraði á vegum var lækkaður úr 70 mílum á klukkustund í 55, bílaframleiðendum í Detroit var einnig uppálagt með lögum að auka sparneytni ökutækja, japanskir smábílar ruddu sér til rúms í Bandaríkjunum og um allan heim og Carter Bandaríkjaforseti klæddist lopapeysu og bað landsfólkið að venja sig við minni hita í heimahúsum og á vinnustöðum í orkusparnaðarskyni. Biðraðirnar við bensínstöðvarnar hurfu eftir skamma hríð, og lífið færðist aftur í fyrra horf. Sagan endurtók sig 1979-1981, nema nú voru menn reynslunni ríkari og áttu enn auðveldara með að laga sig að hærra orkuverði en áður. Viðbrögðin voru ekki jafnhörð í Evrópu, þess gerðist ekki þörf, því að þar var bensínverð mun hærra fyrir vegna gjaldheimtu frá gamalli tíð, svo að hlutfallshækkun olíuverðs var minni þar en í Ameríku og olli þeim mun minna raski. Eigi að síður brugðust Evrópumenn einnig vel við olíuverðshækkuninni í bæði skiptin, t.d. með því að auka sparneytni evrópskra bíla og bæta almannasamgöngur. Evrópskir bílar ruddu sér nú braut inn á Bandaríkjamarkað við hlið japanskra bíla í áður óþekktum mæli. Bandarískir bílar hurfu að heita má af götum evrópskra borga á árunum eftir 1980: þeir þóttu einfaldlega of dýrir í rekstri. Toyota hefur æ síðan selst allra bíla mest á Íslandi. Olía lækkaði þó smám saman aftur í verði eftir 1981 miðað við ýmislegt annað, svo að bensín vó þá ekki lengur jafnþungt í útgjöldum heimilanna vestan hafs, og þá sáu bandarískir bílaframleiðendur sér leik á borði: þeir byrjuðu að framleiða jeppa. Hvers vegna jeppa? Það stafaði m.a. af því, að vinveittir stjórnmálamenn skilgreindu jeppana í lögum sem landbúnaðartæki, og þeir voru því undanþegnir þeim kröfum, sem gerðar eru til fólksbíla um sparneytni og útblástur úrgangsefna. Þannig tókst þeim í Detroit að stilla verðinu á þessum nýju tryllitækjum svo í hóf, að þau hafa selst eins og heitar lummur bæði heima og erlendis og gerbreytt ásjónu t.a.m. Reykjavíkur og annarra byggða (og óbyggða, svo sem hjólför á hálendi Íslands vitna um). Meira en helmingur nýrra bíla í Bandaríkjunum er nú jeppar og svipuð tæki. Jepparnir brenna um 40 prósent af öllu eldsneyti í Bandaríkjunum og blása út röskum fimmtungi þess koltvísýrings sem Bandaríkjamenn sleppa út í andrúmsloftið og mestu veldur um hlýnun loftslags um heiminn. En nú er mörgum jeppamanninum brugðið. Bílaframleiðendum í Detroit er ekki heldur skemmt, því að hækkun bensínverðs á heimsmarkaði hefur dregið úr jeppasölu um víða veröld. Verðhækkunin stafar m.a. af aukinni eldsneytiseftirspurn í Kína, þar sem meira en milljarður manna er sem óðast að skipta út ryðguðum reiðhjólum fyrir nýja bíla, einkum japanska, þýska, kóreska og kínverska bíla. Mörg erlend fyrirtæki framleiða bíla í Kína. Þeir í Detroit sitja eftir með síminnkandi markaðshlutdeild – og sárt ennið. Hvernig gat þetta gerst? Ein skýringin er sú, að bílaverksmiðjurnar í Detroit – General Motors, Ford og Chrysler – vanmátu hættuna á hækkun bensínverðs og nýttu sér nýja tækni til að auka vélarafl nýrra bíla frekar en að auka sparneytni þeirra. Og nú hefur Toyota sett á markað nýjan bíl, sem gengur jöfnum höndum fyrir bensíni og rafmagni. Bíllinn sá virðist líklegur til að fara sigurför um heiminn. Allir helstu bílaframleiðendur í Japan (Honda, Mazda, Nissan og Toyota), DaimlerChrysler og General Motors vinna nú að þróun vetnisbíla. Miklar vonir eru bundnar við slíka bíla. Bandarísku bílafyrirtækin virðast þó einna helst reiða sig á lækkun olíuverðs á heimsmarkaði, tilslakanir löggjafans frá fyrri viðmiðum um mengunarvarnir og olíuvinnslu í friðlöndum í Alaska.
Vegna FB færslu Kristins Hrafnssonar: Misskilningur um endurgreiðslukerfi kvikmynda Ólafur William Hand Skoðun
Vegna FB færslu Kristins Hrafnssonar: Misskilningur um endurgreiðslukerfi kvikmynda Ólafur William Hand Skoðun