Innlent

Hugmyndir móðgun við Álftnesinga

Guðmundur A. Gunnarsson, bæjarstjóri á Álftanesi, segir að Sturla Böðvarsson samgönguráðherra eigi að segja af sér, fyrir að móðga bæjarbúa með óskynsamlegu tali um að honum lítist betur á að flytja innanlandsflugið til Álftaness en á Löngusker. Guðmundur A. Gunnarsson, bæjarstjóri á Álftanesi, var gestur í þættinum Ísland í bítið í morgun og var meðal annars spurður um viðbrögð við ummælum Sturlu Böðvarssonar, samgönguráðherra í fréttum Stöðvar 2 í gærkvöldi um raunhæfa kosti fyrir Reykjavíkurflugvöll utan Vatnsmýrarinnar. Löngusker er sú staðsetning sem oftast hefur verið nefnd en fleiri möguleikar hafa verið nefndir, svo sem Geldinganes, Engey, tveir kostir á landfyllingum við Álftanes og Hvassahraun. Sturla taldi ekki marga raunhæfa kosti í stöðunni, en sagði að honum litist betur á að færa innanlandsflugið til Álftaness en á Löngusker. Guðmundur sagði það óskiljanlegt. Verið væri að endurskoða aðalskipulag sveitarfélagsins og að flugvöllurinn rúmaðist ekki á nesinu. Þá sagði Guðmundur að hugmyndin orkaði á sig sem móðgun við íbúa Álftaness og hann skildi ekki hvers vegna verið væri að gera könnun um flugvöll á nesinu. Guðmundur sagði enn fremur að hann teldi hugmyndina útópíu og að hans mati ætti flugvöllurinn að vera á þeim stað sem hann væri. Ef það væri hins vegar ákvörðun stjórnvalda og Reykjavíkurborgar að flytja hann ætti hann að fara til Keflavíkur eftir 20 ár og menn undirbyggju samgönguæðar fyrir það. Þá benti Guðmundur á að nýbúið væri að byggja upp Reykjavíkurflugvöll og því væri allt tal um flutning óskynsamlegt. Það ætti að taka enda og svo ætti að flytja flugið til Keflavíkur. Aðspurður hvort hann teldi að Sturla Böðvarsson ætti að segja af sér vegna ummæla sinna sagðist Guðmundur ekki botna í því hvert ráðherrann væri að fara. Hann hlyti að hafa mun merkilegri mál að sinna en þessi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×