Innlent

Ný stefna í flugvallarmáli

Ekki er nema hálft ár frá því að Steinunn Valdís Óskarsdóttir borgarstjóri boðaði að Reykjavíkurflugvöllur yrði áfram í Vatnsmýri en í smækkaðri mynd. Nú hefur flugvallarmálið tekið algerlega nýja stefnu. Það var á þriðjudag sem Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, leiðtogi sjálfstæðismanna í borgarstjórn, sneri óvænt við blaðinu í flugvallarmálinu. Í Íslandi í dag sagði hann að yrði hann borgarstjóri ætlaði hann sér að beita sér fyrir því að Vatnsmýrarsvæðið yrði nýtt undir íbúða- og atvinnubyggð og að innanlandsfluginu yrði fundinn nýr staður á næsta kjörtímabili. Steinunn Valdís sagði við sama tilefni að hún byði Vilhjálm velkominn í hóp þeirra sem vildu flugvöllinn burt. Henni þættu þetta mikil tíðindi. Ekki er liðið nema hálft ár frá því Steinunn Valdís samdi við samgönguráðherra um samgöngumiðstöð á Reykjavíkurflugvelli en þá sagði hún um flugvöll í Vatnsmýri að henni fyndist ekki spurning um hvort heldur hvenær aðalumfang flugvallarins flytti eitthvað annað en hún opnaði á það, og hefði gert það áður, að hluti af flugstarfseminni gæti áfram verið í Vatnsmýrinni en að sjálfsögðu ekki í jafnmiklum mæli og í dag. Spurð hvort hugsa mætti sér meginhluta innanlandsflugsins með einni flugbraut sagði Steinunn það hugsanlegt. Í gær sagði Sturla Böðvarsson samgönguráðherra að Álftanes væri ákjósanlegur staður undir flugvöll. Bæjarstjórinn þar, Guðmundur Gunnarsson, brást hart við í morgun. Hann sagðist ekki skilja hvert ráðherra væri að fara. Hann teldi einfaldlega að ráðherra sem segði svona ætti að segja af sér og fá sér aðra vinnu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×