Viðskipti innlent

Líkur á gjaldeyriskreppu aukast

Stórfelld útgáfa erlendra spákaupmanna á skuldabréfum í íslenskum krónum getur leitt til gengishruns með hættu á óðaverðbólgu ef Seðlabankinn lækkar vexti snögglega. Þannig hafa líkurnar á gengisfalli og gjaldeyriskreppu aukist verulega. Hagfræðingur KB banka segir að þetta gæti gert Seðlabankanum erfiðara um vik við að lækka vexti þótt efnahagsástandið kallaði eftir því. Sérfræðingar segja að það hafi einungis verið tímaspursmál hvenær spákaupmenn færu að láta til sín taka að einhverju ráði hér enda sé Ísland orðið þátttakandi. Þannig hefur útgáfa erlendra spákaupmanna á skuldabréfum í íslenskri mynt fyrir um átján milljarða króna leitt til hækkunar krónunnar að undanförnu. En sá böggull fylgir skammrifi að þessi markaður er mjög hvikull. Líkt og útgáfa spákaupmanna að undanförnu á skuldabréfum í íslenskum krónum fyrir um átján milljarða hefur leitt til þess að gengið hefur hækkað snögglega um tvö prósent að undanförnu, gæti það lækkað að sama skapi mjög snögglega ef útlit yrði fyrir vaxtalækkun. Það gæti leitt til harkalegrar lendingar gengisisins ef slíkar fjárfestingar koma til með aukast. Og þær koma með að aukast að mati KB banka, miðað við óbreytt ástand. Og útgáfa erlendra aðila á íslenskum skuldabréfum er ekki eina áhyggjuefnið í því sambandi heldur komi þar til viðbótar framvirkir samningar í íslenskum krónum fyrir tugi milljarða. Ásgeir Jónsson, hagfræðingur KB banka,  segist telja að að hafi komið í veg fyrir hrun íslensku krónunnar þegar hún lækkaði snögglega árið 2001 að engir erlendir spákaupmenn voru á markaði hér. Hann segir einnig að mögulegt sé að Seðlabankinn þurfi að skrúfa upp vextina til þess að geta strýrt gengi krónunnar. Hann sagði það geta haft slæmar afleiðingar fyrir atvinnuvegina.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×