Innlent

Vilja svör um öryggisráðið

Þetta mál er ekki búið að gera upp endanlega og því stendur umsóknin enn. Við vinnum enn í málinu," segir Davíð Oddsson utanríkisráðherra um aðildarumsókn Íslands að öryggisráði Sameinuðu þjóðanna. "Það má segja að við séum að leita leiða og kanna hvort hægt sé að halda þessu áfram með miklu minni kostnaði en menn höfðu áður velt fyrir sér." Davíð átti fund með utanríkisráðherrum Norðurlandanna fyrir rúmri viku í Danmörku. "Þeir tóku þetta mál upp við mig og ég ræddi þetta. Það er heilmikill þrýstingur af þeirra hálfu að við hverfum ekki frá þessu," segir Davíð og bætir við að ákvörðun verði tekin áður en þing kemur saman í haust. Kjörið til öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna verður ekki fyrr en 2008 en umfangsmikil kosningabarátta er fyrir höndum þangað til. Áætlað hefur verið að kostnaður við framboð Íslands verði vart minni en 600 milljónir króna en Íslendingar etja kappi við Tyrki og Austurríkismenn um sæti í öryggisráðinu. Norðurlandaþjóðirnar hafa skipst á um að bjóða sig fram til öryggisráðsins en þetta er í fyrsta sinn sem Ísland lýsir áhuga á setu í ráðinu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×