Innlent

Farið of geyst með ráðstöfun fjár

Formaður Samfylkingarinnar telur ríkisstjórnina fara of geyst í að ráðstafa fénu, sem fékkst fyrir sölu Símans, fram í tímann. Hún telur farsælla að leggja peningana til hliðar og ávaxta þá fyrst um sinn í stað þess að ráðstafa fénu fram í tvö næstu kjörtímabil. Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri grænna, hefur gagnrýnt hvernig stjórnvöld hafa staðið að ráðstöfun símasölupeningana þótt hann telji verkefnin góð og gild. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar, tekur undir orð Steingríms og bætir við að henni finnist ótímabært að ráðstafa fénu svo langt fram í tímann. Ingibjörg Sólrún segir að henni lítist ágætlega á að ekki eigi að ráðstafa fénu fyrr en 2007 þar sem það er ljóst að dífa verður í hagsveiflunni og nokkuð erfiðir tímar þá framundan og þá gott að eiga eitthvað upp á að hlaupa. Henni finnst ríkisstjórni dálítið fljót á sér að ætla að ráðstafa 43 milljörðum inn í framtíðina frá árinu 2007-2012. Ingibjörg Sólrún segir ríkisstjórnina, með yfirlýsingu sinni, senda röng skilaboð á sama tíma og því sé beint til annarra að sýna aðhald í fjármálum og sagði þetta vera dæmigert ráðherraræði þar sem ráðherrarnir setjast niður og svo fær hver ráðherra peninga í sinn málaflokk og í rauninni búið að niðurnjörva allt áður en Alþingi kemur að verkinu. Hún hefði frekar viljað sjá að fjármunirnir yrðu teknir til hliðar og vel hefði mátt ávaxta féð og ekki taka svona skarpar ákvarðanir um ráðstöfunina.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×