Innlent

Brotthvarf Davíðs mikil tíðindi

"Það eru auðvitað heilmikil pólitísk tíðindi þegar maður sem hefur sett jafnmikinn svip á stjórnmálin og Davíð Oddsson hefur gert er að hverfa af sjónarsviðinu," segir Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar. "Davíð er mjög öflugur og verðugur andstæðingur og ég mun auðvitað sakna hans af hinum pólitíska leikvangi. Það hefur legið svolítið í loftinu að Davíð færi að hætta, en það kemur mér nokkuð á óvart að hann skuli fara í Seðlabankann. Að hann skuli feta þá hefðbundnu leið að fara úr forsætisráðuneytinu í Seðlabankann finnst mér ekki alveg vera í hans anda. Það er samt enginn vafi á því að hann er mjög hæfur til að setjast í bankastjórastólinn hafandi tekið þátt í að stjórna efnahagsmálunum hér um langt skeið." Davíð hefur verið mjög fyrirferðarmikill á stjórnmálasviðinu. Þegar slíkir menn hverfa af sviðinu getur myndast ákveðið tómarúm. Það gerðist til dæmis þegar hann hætti sem borgarstjóri. Nú hafa sex sjálfstæðismenn reynt að feta í hans fótspor þar en ekki haft erindi sem erfiði. Það getur því orðið erfitt fyrir flokkinn að finna taktinn þó það komi eflaust mætur maður í hans stað. Ég á ekki von á öðru en það verði Geir H. Haarde."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×